Þriðjudaginn 6. júní 2017 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Farið var yfir spágildi veðurspár fyrir maímánuð og voru fundarmenn nokkuð sáttir með hvernig til hafði tekist. Skotið kom þó heldur fyrr en spáð hafði verið fyrir um og var heldur minna og heldur meiri væta. Tunglið sem kviknaði 26. maí kl. 19:46 í V er ríkjandi fyrir veðurfar í júní. Veður í júní verður kalt framan af mánuði og vætusamt. Kringum 20 júní munu verða breytingar á veðri og láta Veðurklúbbsfélagar lesendum sínum eftir að meta til hvaða breytinga veðurfar snýst á þeim tíma, en miklar líkur eru til að það muni ekki versna og fari frekar hlýnandi.
Veðurklúbburinn mun verða í frí varðandi veðurspá fyrir júlí, en samt má reikna með að það verði eitthvert veður í þeim mánuði.
Veðurvísa júní og júlí
Í júní sest ei sólin,
þá brosir blómafjöld.
Í júlí baggi er bundinn
og borðuð töðugjöld.
Með sumarkveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ