Nú er jólaskreytinganefndin búin að fara um sveitarfélagið og skoða jólaskreytingar en nefndin er skipuð þeim Margréti Víkingsdóttur, Jóni Arnari Sverrissyni, Helgu Írisi Ingólfsdóttur og Ingvari Kristinssyni.
Valið um fallegustu skreytinguna var erfitt í ár því að mörg hús voru mjög fallega skreytt. Nefndin tók sérstaklega eftir því að margir hafa lagt mikla vinnu í að skreyta garða sína og bendir fólki á að líta eftir þeim.
Sigurvegararnir að þessu sinni eru íbúar í Svarfaðarbraut 12 þau Friðbjörg Jóhannsdóttir og Ottó Gunnarsson. Húsið og garðurinn eru mjög rómantísk, skreytt með hvítum ljósum, og lýsa fallega upp skammdegið fyrir okkur hinum. Eigendurnir hafa lagt mikið á sig við þessar hlýlegu skreytingar og fá að verðlaun fallega jólaskál frá Stjörnunni glermunum.
Að auki hljóta tvö hús í sveitarfélaginu sérstakar viðurkenningar sem einnig koma frá Stjörnunni glermunum en það eru Ásholt 6 á Hauganesi og Aðalbraut 6 á Árskógssandi en bæði þessi hús hafa fallegt heildarútlit með skreytingum á húsi og í garði.
Nefndin vill einnig benda íbúum á að víða leynast skemmtilegar skreytingar og má þar nefna lítið hús í garðinum á Brimnesbraut 1 og fallegar gluggaskreytingar í Drafnarbraut 1. Eins eru Bárugata 6 og Hringtún 1 mjög falleg. Að auki eru þrír bæir í Svarfaðardal skemmtilega skreyttir en það eru Brekka, Urðir og Göngustaðir.