Upplýsingamiðstöð Dalvíkurbyggðar var starfrækt í Bergi menningarhúsi í sumar, frá júní byrjun og fram til ágústloka. Heilt yfir gekk starfsemin afar vel og í raun kemur á óvart hversu margir lögðu leið sína í Upplýsingamiðstöðina.
Mikil breidd er í þeim upplýsingum sem ferðamenn leita eftir og margir mjög forvitnir um svæðið, jafnvel svo forvitnir að sumir breyttu ferðaáætlunum sínum og framlengdu dvöl sína hér eftir viðkomu í Upplýsingamiðstöðinni. Gönguleiðir voru mjög vinsælar ásamt ýmis konar afþreyingu, svo sem hvalaskoðun, hestaferðum og söfnum/sýningum. Þá voru margir áhugasamir um Grímsey og Hrísey.
Haldið var utan um fjölda þeirra sem komu, sem og þjóðerni, og er forvitnilegt að rýna í þær tölur. Hafa ber þó í huga að skráningin er ekki tæmandi. Alls voru skráðir 1378 ferðamenn frá 37 löndum. Flestir þeirra sem komu á Upplýsingamiðstöðina voru Þjóðverjar, þá Frakkar, Íslendingar og Spánverjar.