Ungir leikarar sýna verkið Frá upphafi til enda

Leiklistarhópur unglingadeildar Dalvíkurskóla frumsýnir nýtt leikverk þann 19.febrúar næstkomandi í Ungó. Nefnist það verk „Frá upphafi til enda...“.
Dalvíkurskóli og Leikfélag Dalvíkur eru nú enn og aftur í samstarfi í tengslum við leiklistarvinnu með unglingum í Dalvíkurbyggð. Er þetta í fimmta sinn sem samstarf af þessu tagi er tekið upp. LD leggur fram æfingarhúsnæði til afnota í 6 vikur fyrir þessa vinnu, endurgjaldslaust og félgasmenn aðstoða auk þess varðandi búninga, leikmuni og fleira.


Leiklist er kennd sem valgrein í 8.,9. og 10. bekk í Dalvíkurskóla og hvorki fleiri né færri 28 nemendur sækja þessa faggrein í vetur !
Leiðbeinandi leikhópsins og leikstjóri uppfærslunnar er Arnar Símonarson, kennari og samfélagsþjálfi.

Að sögn Arnars er leiklistarhópurinn afar fjörugur og skemmtilegur, krakkarnir sérlega áhugasamir og taka vinnu sína við uppsetninguna alvarlega. Æft er síðdegis og á kvöldin alla virka daga og reynt er til hins ítrasta að koma til móts við þátttakendur með tilliti til annarar frístundaiðju.

Arnar segir að verkið sem slíkt sé fjörugt með fullt af skemmtilegum augnablikum, en það er unnið út frá skapandi hugmyndavinnu. Verkið fjallar um lífið frá vöggu til grafar, þar sem einblínt er á samskipti, ástir, viðburði og örlög.

Pétur Skarphéðinsson og Kristján Guðmundsson sjá um ljósavinnu. Jón Ingi Ólason og Aron Óskarsson sjá um hljóðavinnu og Guðný Ólafsdóttir hannar leikskrá.

Umsjón með miðasölu er í höndum Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttur.
Fyrirhugað er að frumsýna þetta verk föstudaginn 19. febrúar næstkomandi og áætlaðar eru 8 sýningar á verkinu.

Miðapantanir í síma 865 3158 (Lovísa María)

Sýningar :
Föstudaginn 19. febrúar Kl. 18.00 Frumsýning
Laugardagur 20. Febrúar Kl. 16.00 og 18.00
Mánudagur 22. febrúar Kl. 20.30
Þriðjudagur 23. febrúar Kl. 20.30
Miðvikudagur 24. febrúar Kl. 18.00 og 20.30
Fimmtudagur 25. febrúar Kl. 18.00

Verð :
Börn yngri en 6 ára : 300.-
Börn á grunnskólaaldri 600.-
Fullorðnir 1.000.-