Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur fengið til umsagnar þingsályktunartillögu um stofnun Ráðgjafarstofu innflytjenda. Í Dalvíkurbyggð eru samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofu Íslands 200 aðilar með erlent ríkisfang sem er 10,53% af heildaríbúatölu sveitarfélagsins á 2. ársfjórðungi 2018. Þetta er hátt hlutfall. Við væntum þess að slík Ráðgjafastofa geti auðveldað innflytjendum að fá svör við margvíslegum spurningum sem á þá leita hvað varðar rétt þeirra og skyldur í íslensku samfélagi. En í þessu samhengi er rétt að benda á að nú þegar er til Fjölmenningarsetur með aðsetur á Ísafirði og því vakna spurningar um aukið flækjustig ef starfræktar verða tvær ráðgjafarstofur sem þjóna að meginhluta sama tilgangi.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar fagnar því tækifæri sem kemur upp í hendur ráðamanna þjóðarinnar ef þingsályktunartillagan verður samþykkt og Ráðgjafarstofa innflytjenda verður að veruleika. Þar sem um nýja ríkisstofnun er að ræða og notendur þjónustunnar eru mjög dreifðir um landið þá teljum við einboðið að stofnunin verði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig að ráðið verði í störfin skv. stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 um tækifæri til atvinnu (B.i. og B.j.) og um störf án staðsetningar (B.7.) . Við ítrekum að mikill fjöldi innflytjenda er staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins, á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Þá ítrekum við að notendur þjónustunnar eigi að geta nýtt sér nútíma tækni til að sækja sér upplýsingar og þjónustu hvar sem þeir eru staðsettir á landinu og hvar sem starfsmenn stofnunarinnar verða staðsettir. Það gildir líka um íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hvetur Alþingi til að taka ofangreinda tillögu/athugasemd til alvarlegrar athugunar ef þingsályktunartillagan verður samþykkt. Láta þá verkin tala og sanna að allt tal um byggðasjónamið og eflingu landsbyggðarinnar sé meira en orðin tóm.