Síðastaliðinn laugardag var haldið upp á 50 ára afmæli Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar. Haldin var vegleg dagskrá í Bergi menningarhúsi þar sem íbúum og velunnurum skólans var boðið. Fram komu nemendur og kennarar skólans ásamt fyrrum nemendum hans.
Samherji hf afhenti tónlistarskólanum við þetta tækifæri veglega gjöf en það var Sigurður Jörgen Óskarsson, yfirverkstjóri vinnslunnar á Dalvík, sem afhenti hana. Gjöfin er 500 dvd diskar með upptöku af útitónleikum að kvöldi Fiskidagsins mikla 2014 en að þeim standa Samherji í samvinnu við Rigg viðburði og Fiskidaginn mikla. Tónlistarskólinn getur nú selt þessa diska og mun andvirði þeirra renna til hljóðfærakaupa fyrir skólann. Í máli Sigurðar kom fram að það væri ómetanlegt fyrir samfélag eins og okkar að eiga svo frambærilegan tónlistarskóla eins og raun ber vitni. Nemendur og kennarar skólans
hafi í gegnum tíðina komið fram í dagskrá Fiskidagsins mikla og hafi margir þar stigið sín fyrstu skref á sviði fyrir framan þúsundir gesta. Þannig hefur skólinn lagt sitt af mörkum til að gera glæsilega dagskrá Fiskidagsins mikla að veruleika og Fiskidagurin mikli um leið stutt við bakið á ungu tónlistarfólki.
Fræðslu- og menningarsvið Dalvíkurbyggðar, ásamt Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar, vill því koma á framfæri þökkum til Samherja hf fyrir svo glæsilega gjöf til skólans. Gjöfin mun, sem áður sagði, nýtast til hljóðfærakaupa fyrir skólann og þannig styðja við áframhaldandi þróun og uppbyggingu hans.