Mánudaginn 1. febrúar var tónlistardagur í 1.-6. bekk, yngri deild Grunnskóla Dalvíkurbyggðar. Dagurinn var skipulagður í góðu samstarfi kennara Tónlistarskólans og Dalvíkurskóla.
Hálfan morguninn voru börnin í Tónlistarskólanum, þar sem tónlistarkennararnir kynntu sín hljóðfæri; Zsuzsanna kynnti fiðluna, Helga Bryndís píanóið, Helgi málmblásturshljóðfærin, Valdi gítarinn, Ave harmonikkuna og Páll tréblásturhljóðfærin. Nutu þau fulltingis nemenda sinna sem spiluðu á hljóðfærin og aðstoðuðu þannig við kynninguna. Hinn hluta morguns voru nemendur uppi í skóla, þar sem boðið var upp á fjórar smiðjur; Magni Ásgeirs söng með krökkunum, Hjöri bauð uppá hljóðfæragerð, Þóra og Inga Magga kenndu þjóðdansa og Ármann Einarsson frá Tónlistarskóla Akureyrar sá um skemmtilega vinnu með rythma, þar sem nemendur slógu taktinn á líkama sínum og lærðu nokkur dansspor.
Skapandi starf er mikilvægur þáttur í leik og starfi skólabarnanna. Tónlistarsköpun, tjáning og dans eflir skapandi hugsun, þjálfar einbeitingu og félagsþroska. Rannsóknir hafa sýnt að tónlist hefur góð áhrif á líðan okkar og þroska. Hún eflir alhliða þroska nemenda og hefur mikið persónulegt gildi fyrir hvern einstakling.
Með því að skipuleggja dag eins og tónlistardaginn viljum við mynda jákvætt viðhorf til tónlistarinnar og minna á að tónlistin á erindi við okkur öll!
Kærar þakkir fyrir frábæran dag!
Kennarar Grunnskóla Dalvíkurbyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkur.