Tilkynning frá Hitaveitu Dalvíkur

Á íbúafundi 26. febrúar sl. voru þau áform kynnt að aflestrar yrðu framkvæmdir oftar þannig að reikningar tækju mið af notkun á hverju reikningatímabili. Slíkur aflestur var framkvæmdur 29. apríl sl. þannig að reikningur sem gefinn var út fyrir tímabilið 28. febrúar til 30. apríl sýnir raunnotkun viðskiptavina frá síðasta aflestri sem var í byrjun desember. Næst verður lesið af í lok júní sem mun þá endurspegla notkun maí og júní.


Eins og viðskiptavinum er kunnugt um er búið að skipta um mæla og bjóða þeir uppá aflestur í gegnum sendi. Því verða viðskiptavinir ekki varir við þegar aflestur er framkvæmdur. Ókosturinn við þetta er sá að reikningarnir eru breytilegir eftir því hve mikil notkunin er á hverju tímabili. Notkun er mest að vetrinum og því verða reikningar sem byggja á aflestri þá hærri en að sumarlagi. Það kann að valda óöryggi hjá notendum.


Hitaveitan vill biðja viðskipavini afsökunar á því en markmiðið með þessum breytingum var að auka þjónustu við þá.


Ef einhverjar fyrirspurnir eru þá vinsamlegast hafið samband við undirritaðan.

Þorsteinn Björnsson
veitustjóri