Þorri Hringsson sýnir verk sín í Bergi menningarhúsi á Dalvík í júlí og fram í byrjun ágúst. Samtals eru 17 verk á sýningunni, 11 olíumyndir og 6 vaxlitamyndir, sem Þorri hefur unnið að síðasta árið. Sýningin stendur fram til 5. ágúst.
Myndirnar eru landslagsmyndir og spilar umhverfið í Aðaldal þar stórt hlutverk. Vatn er ríkjandi þáttur í verkunum og nær Þorri á tæran og hófstilltan hátt að sýna margbreytileika þess. Lygnan straum við árbakkann, þokuslæðing, lítinn hólma, botngróður. Verkin sýna á draumkenndan hátt blæbrigði litanna og ná þannig að skapa hreyfingu í stilltu vatni. Þannig eru verkin einföld við fyrstu sýn en afhjúpa margbreytileika sinn við nánari kynni.
Salurinn í Bergi skapar sýningunni fallega umgjörð. Bjartur og stílhreinn undirstrikar hann kyrrðina í verkunum og veitir áhorfandanum kærkomna hvíld frá amstri dagsins.
Þorri Hringsson er fæddur í Reykjavík árið 1966. Hann er ættaður úr Haga í Aðaldal en einnig er hann ættaður úr Svæði við Dalvík og því vel við hæfi að halda sýninguna í Bergi menningarhúsi.
Þorri útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989 og árið 1991 frá Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi. Þorri hefur haldið margar sýningar hér á landi og í Hollandi ásamt því að hafa tekið þátt í samsýningum. Þorri hefur kennt við Myndlistarskóla Reykjavíkur frá árinu 1992 en að auki hefur hann lagt stund á blaðamennsku og myndasögugerð og hann var meðal annars í ritstjórn myndasögutímaritsins GISP.