Svarfdælskur mars 2017
Föstudagur 24. mars:
Upplestur úr Svarfdælu
Undanfarin ár hefur 10. bekkur lesið upp úr Svarfdælu í Bergi, í tengslum við Svarfdælskan mars. Þar sem nemendur verða ekki á staðnum í ár vegna ferðar á Samfés munu þeir, í staðinn fyrir lifandi upplestur, bjóða upp á myndband sem sýnt verður í salnum í Bergi með upplestri á völdum köflum úr Svarfdælu. Nemendur lásu upp fyrir framan grænskjá (green screen) sem gerir þeim kleift að skreyta bakgrunninn með myndum.
Brús að Rimum kl. 20.30 – 23.30.
Heimsmeistaramót í Brús, keppt um gullkambinn góða. Æfinga- og kennslubúðir í hliðarsal. Þátttökugjald er kr. 1000.
Laugardagur 25. mars:
Málþing í Bergi kl. 14:00
Byggðasagan; söfnun, varðveisla og skapandi nýting
- Af hverju skiptir þetta máli? Mikilvægi héraðsskjalasafna fyrir byggðarlög. Björk Hólm, forstöðumaður bóka- og héraðsskjalasafns segir frá þætti safnsins í varðveislu sögunnar.
- Svarfdælasýsl færir út sögukvíar. Jarðbrúarbræður, Atli Rúnar og Óskar Þór, segja frá sínu grúski, heimildaöflun og væntanlegri bók um Húsabakkaskóla, Göngustaðaættina og Land&syni.
- Söfnun, varðveisla, miðlun. Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, safnstjóri byggðasafnsins Hvols segir frá þætti safnsins í varðveislu og miðlun sögunnar.
- Hafið bláa. Jóhann Antonsson segir frá söfnun og skráningu sjávarútvegssögu byggðarlagsins
- Saga byggðar er saga manns. Anna Dóra Antonsdóttir fjallar um það hvernig sagan er notuð sem efniviður í bók, en árið 1998 sendi Anna frá sér sögulegu skáldsöguna Voðaskot: saga af ólukkutilfelli. Þar segir frá óupplýstu sakamáli sem átti sér stað á Dalvík á nítjándu öld.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!
Sunnudagur 26. mars
Aðalfundur Sögufélags Svarfdæla kl. 17:00. Fundurinn verður að venju haldinn í húsnæði Héraðsskjalasafnsins í kjallara Ráðhúss. Venjuleg aðalfundarstörf og umræður um næstu verkefni félagsins.