Fjölmennt var á fyrirtækjaþinginu sem haldið var í Safnaðarheimili Dalvíkurkirkju í gær. Almennt má segja að gott hljóð hafi verið í fólki og mikill baráttuhugur eins og sést í fyrirsögninni sem er tilvitnun í einn fundargesta. Þorvaldur Lúðvík hjá Saga Capital var með framsögu og fór hann almennt yfir atburði síðustu vikna, stöðuna eins og hún lítur út í dag og hvers væri að vænta. Í máli hans kom fram að þrátt fyrir að staðan sé erfið muni okkar eðlislæga bjartsýni og vinnusemi hjálpa okkur að komast út úr þessum ógöngum og að við munum standa sterkari á eftir. Einnig taldi hann að grunnatvinnugreinarnar eins og sjávarútvegur myndu hjálpa okkur út úr þessu ástandi sem verður að teljast jákvætt fyrir okkar sveitarfélag. Eftir að erindi hans lauk fór fram pallborðsumræða en í palli sátu fulltrúar atvinnulífsins auk bæjarstjórans Svanfríðar Jónasdóttur. Engan bilbug var að heyra á fólki þrátt fyrir erfitt ástand og voru allir sammála um það að miðað við stöðuna í dag stæði byggðalagið hér sterkt. Atvinnulíf svæðisins byggist fyrst og fremst á grunnatvinnugreinum og því hægt að vera hæfilega bjartsýn í núverandi ástandi. Grunnurinn er sterkur og hér eru atvinnugreinar sem eiga að geta blómstrað eins og ástandið er. Ekki er enn farið að segja upp fólki hér og ekki gert ráð fyrir því í fyrirsjánlegri framtíð. Atvinnuástandið er því almennt gott á þessu svæði. Ýmis nýsköpun var einnig rædd t.d. í landbúnaði og töldu menn að nú væri færi að byggja upp svo að við værum tilbúin þegar næsta hæð skellur á.
Við höfum hér góða ímynd og dugmikið fólk sem kann að takast á við erfiðleikana og standa sterkari eftir. Tækifærin liggja því ekki síst í þeim mannauð sem nú byggir Dalvíkurbyggð. Styrkurinn er hér og við eigum heilmikið inni.