Októbermót blakfélagsins Rima er nú haldið í 7. skiptið helgina 14.-15. október. Mótið hefur stækkað ár frá ári og er því spilað bæði á föstudagskvöldi og allan laugardaginn en í ár taka alls 30 lið af öllu Norðurlandi þátt.
Í fyrra var sú nýbreytni að mótið var tileinkað stuðningi við Bleika daginn, sem er árveknis - og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum. Það sama er upp á teningnum í ár og munu 500 kr. af hverju mótsgjaldi renna til Krabbameinsfélagsins á Akureyri.
Af þessu tilefni munu karla og kvennalið Rima spila í bleikum fatnaði alla helgina en ekki sínum hefðbundnu keppnisbúningum. Rimar hafa síðan hvatt önnur lið til að mæta með eða í einhverju bleiku til stuðnings málefninu.
Íbúar, sem aðrir, eru hvattir til að mæta í Íþróttamiðstöðina föstudag og laugardag, fylgjast með skemmtilegu blakmóti og hvetja sitt lið.