Sóknarbraut - námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja

Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands kynnir námskeiðið Sóknarbraut í Dalvíkurbyggð. Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki.

Grundvöllur námskeiðsins
Námskeiðið Sóknarbraut er námskeið um rekstur fyrirtækja þar sem áhersla er lögð á markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Kennslan fer fram á fræðilegum og faglegum grunni og á námstímanum vinna þátttakendur að ákveðnu verkefni sem byggir á þeirra eigin viðskiptahugmynd. Kennt verður á þriðjudögum frá 12:00-16:00.

Fyrirkomulag
Hugmyndin að baki námskeiðinu byggir á að brúa bilið á milli hugmyndar og markvissrar framkvæmdar með því að leiðbeina og þjálfa þátttakendur í því að takast á við frumkvöðlastarf, stjórnun og rekstur fyrirtækis. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, þjálfun, viðtölum og verkefnum sem tengjast þeirri hugmynd sem hver einstaklingur vinnur að hverju sinni. Meðal verkefna sem unnin verða eru markaðsáætlun, kynning á viðskiptahugmynd, fjárhagsáætlun og verkáætlun. Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda. Hver hluti er fjórar klst. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 8. febrúar.

Fyrir hverja?
Námskeiðið Sóknarbraut er fyrir núverandi og verðandi stjórnendur minni fyrirtækja. Námskeiðið hentar vel einstaklingum sem starfa sem stjórnendur í minni fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa hug á að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd eða stofna eigið fyrirtæki. Sóknarbraut er opið jafnt körlum sem konum og ekki er gerð krafa um sérstaka undirbúningsmenntun, þátttakendur þurfa einungis að hafa viðskiptahugmynd til að vinna með á námskeiðstímanum.
 
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar má nálgast hjá Selmu Dögg Sigurjónsdóttur á netfanginu selma@nmi.is  eða í síma 522 9434. Umsóknareyðublöð má finna á vefsíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands www.nmi.is/impra . Skráningarfrestur er til 4. febrúar.

Bæklingur um Sóknarbraut