Skuggabirta er nafn á sýningu sem opnaði laugardaginn 8. apríl í Bergi á Dalvík en þar sýnir Guðmundur Ármann vatnslitamyndir og olíumálverk. Viðfangsefni sýningarinnar er hin kvika birta náttúrunnar og vísar titill sýningarinnar, Skuggabirta, til þess.
Vatnslitamyndirnar eru málaðar úti í náttúrunni og bera þess merki hversu listamaðurinn hefur næmt auga fyrir blæbrigðum hennar og hversu vel hann nær að fanga birtuna og augnabliks stemninguna. Litasamsetningarnar eru einkar fallegar og sýna vel samspilið á milli jarðarinnar og birtunnar.
Olíumálverkin eru unnin á vinnustofu listamannsins með vatnslitamyndirnar í bakgrunni en þar eru litasamsetningar og formspil náttúrunnar færð í strangari myndbyggingu. Verkin virka einföld við fyrstu sýn en eftir því sem áhorfandinn gefur sér lengri tíma til að gaumgæfa þau afhjúpa þau margbreytileika sinn.
Fjöllin eru leiðarstef í sýningunni. Þau mynda sterkt mótvægi við leikandi litina og birtuna og binda myndirnar saman. Þau teygja sig úr dýpstu iðrum jarðar, alla leið upp í himininn og tengja umhverfið saman. Eru fastinn, þetta trausta sem aldrei fer á meðan annað í umhverfinu er síbreytilegt. Þau aðlaga sig að mismunandi birtu, árstíðum, veðri og skipta um búning eftir þörfum þó að í grunninn og formgerðarlega séð séu þau óbreytt. Þannig eru þau síbreytileg en samt formföst á sama tíma. Svolítið eins og sköpunin sem er kjarninn í því sem listamaðurinn gerir á meðan umhverfið mótar svo í hvaða átt sköpunin fer. Kannski eru fjöllin þá tákn fyrir listamanninn sjálfan en hann er grunnurinn eða fastinn í sköpuninni.
Salurinn í Bergi hentar einkar vel fyrir sýningu af þessu tagi en birtan í salnum, sem er mismunandi eftir því hvaða tími dagsins er, hefur áhrif á birtuna í myndunum og eykur enn á margbreytileika þeirra.
Falleg og björt sýning sem skilur mann eftir með gleði í hjarta og þrá eftir vorinu og hækkandi sól.
Um listamanninn
Guðmundur Ármann Sigurjónsson lauk prentmyndasmíðanámi árið 1962 og hóf sama ár myndlistanám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist af málunardeild 1966. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann hóf nám við Konsthögskolan Valand, Göteborgs Universitet þar sem hann lauk námi frá grafíkdeild skólans 1972. Auk þess hefur hann lokið kennararéttindarnámi og meistaranámi við Háskólann á Akureyri. Guðmundur er nú kennari á eftirlaunum en kennir á námskeiðum og listfræðslu hjá Símey. Guðmundur hefur haldið fjölda sýninga hér heima og erlendis og eru verk eftir hann í eigu safna eins og Listasafns Íslands, Listasafnsins á Akureyri og Moderna Museet í Stokkhólmi.