Nú í haust var skógreitnum fyrir neðan Brekkusel gefið nafnið Böggur. Haldin var nafnasamkeppni þar sem 18 tillögur að nafni á reitinn bárust og varð þessi tillaga hlutskörpust. Í dómnefndinni voru; Kolbrún Pálsdóttir, Björgvin Hjörleifsson, Helgi Einarsson, Kristján Hjartarson og Jón Arnar Sverrisson. Vinningstillöguna á Kristín Aðalheiður Símonardóttir.
Skýringar á nafninu Böggur má finna víða:
- Ekki vitað hvaðan Böggvis kemur upprunalega en Böggvisstaðir var ekki landnámsjörð heldur verður til síðar.
- Til eru margar útgáfur af þessu nafni – eins og Böggversstaðir, Böggvestaðir, Böggustaðir og Böggstaðir.
- Í Svarfdælu kemur fram að Ingveldur Fögurkinn hafði átt bróður sem hét Böggvir og afi þeirra var Ljótur.
- Það kemur líka fram í Svarfdælasögu að Klaufi hafi haft þetta viðurnefni vegna þess hvað hann var óheppinn og ljótur, en þá er orðið tengt við bagga eins og einhvern tálma, samanber hvað baggaði honum eða hvað baggar honum eins og eitthvert mein.
- Í dag segjum við hvað er að bögga þig, sem er sama merking í fornöld. Því má segja að þetta orð sé gamalt íslenskt orð, að bögga, en það tengist líka enska orðinu bögg sem mikið er notað í tölvuheiminum þegar einhver bilun er. Þarna sést tenging íslenskunnar við keltnesku eða ensku í dag.
- Í sumum ritum er Böggur sagt vera böggull eða baggi eins og enska orðið bag. Böggustaðir/Böggvisstaðir þýðir samkvæmt þessu Baggastaðir.
- Áður fyrr hét Dalvík Böggvisstaðasandur, stundum kallað líka Böggviðsstaðasandur því mikill rekaviður gekk hér upp í fjöru sem var nýttur til ýmissa hluta.
- Dómnefndin var sammála um þetta nafn, eina sérnafnið sem kom sem ekki tengdist skógi, reit eða hafði annað fylginafn. Hér í kring er allt Böggvisstaðafjall, Böggvisstaðasandur, Böggvisstaðabraut, Böggvisstaðahólar og svo framvegis. En þarna kom einfaldlega stytting á þessum nöfnum- grunnurinn í þeim öllum sem er Böggur.
Aðrar tillögur sem bárust voru:
Gleðiskógur
Holtið
Selvangur
Selskógur
Böggvisstaðareitur
Böggvisstaðaskógur
Gjafaskógur
Bæjarreitur
Skógarsel
Böggur
Dalreitur
Vinalundur
Krakkaskógur
Rjúpnalundur
Hvergiland
Ármannslundur
Ármannsreitur
Skjól