Héraðsskjalasafn Svarfdæla hefur starfrækt svokallaðan ljósmyndahóp síðustu fjögur árin en hópurinn samanstendur af eldri borgurum og öðrum áhugasömum um varðveislu og skráningu ljósmynda. Í upphafi var markmiðið að fá inn á safnið fólk sem þekkti til þeirra aðila sem birtast á því gríðarlega magni ljósmynda sem safnið geymir en voru ekki, á þeim tíma, skráðar með neinum hætti. Talin var hætta á að með tímanum myndi þessi vitneskja glatast með nýrri kynslóðum og því ákvað þáverandi safnstjóri að nýta þekkingu og minni eldri kynslóða byggðalagsins til aðstoðar við þessa vinnu. Þannig hefur hópurinn farið í hægt og sígandi í gegnum ljósmyndasafnið og merkt, skráð og flokkað.
Hópurinn er misstór, um það bil 10-16 manns, og í dag er enginn úr upprunalega hópnum. Allir mega vera með og flestir hafa komið inn í hópinn af því þeir fréttu af þessari vinnu í gegnum aðra meðlimi eða hreinlega ákváðu bara að mæta. Þeir sem eru í hópnum hafa líka hvatt aðila með góða staðar- og mannaþekkingu til að mæta. Venjulega hittist hópurinn á héraðsskjalasafninu en einstaka sinnum hefur hann líka farið inn á Árskógsströnd og hist þá í Árskógarskóla.
Auk þess að fara almennt í gegnum ljósmyndasafnið hefur hópurinn í gegnum tíðina unnið með ýmis þemu eins og til dæmis Sveitastörf og Mjólkurbíla og/eða flutninga í Dalvíkurbyggð. Í lok slíkrar vinnu er svo venjulega haldin sýning í Bergi menningarhúsi þar sem einhver úr hópnum kynnir vinnuna og segir sögu myndanna sem rúlla í gegnum skjávarpa. Eins hefur stundum verið fenginn utanaðkomandi fyrirlesari sem hefur verið að vinna með sambærilegt eða sama efni.
Þegar núverandi forstöðumaður, Björk Hólm, kom til starfa í upphafi árs 2017 ákvað hún strax að vinna ljósmyndahópsins væri eitt af því sem yrði að halda við . ,,Það er ótrúlega skemmtileg stemming í þessum hópum, segir Björk, og miðvikudagar eru alltaf uppáhaldsdagarnir mínir í vinnunni út af þessum hóp. Mér þykir líka svo vænt um það þegar þau segja sögur sem tengjast viðburðum eða fólki á myndunum sem við skoðum því einni mynd getur fylgt svo mikil saga.“
Hún segir líka að „þær ljósmyndir sem eru geymdar á Héraðsskjalasafni Svarfdæla endurspegla mannlíf Dalvíkurbyggðar á síðustu öldum og veita innsýn inn í löngu liðinn tíma. Það væri með öllu ómögulegt að átta sig á því hverjir prýða margar af þessum ljósmyndum ef ekki væri fyrir þennan frábæra ljósmyndahóp. Þeirra vinnuframlag er safninu algjörlega ómetanlegt og má Dalvíkurbyggð vera þeim virkilega þakklát fyrir þeirra framlag.‘‘
Enn fremur segir hún að það sé alltaf þessi yfirvofandi hætta á að vera of seinn að skrá niður upplýsingarnar og varðveita áður en þær hverfa af sjónarsviðinu og því sé starfsemi þessa hóps gríðarlega mikilvæg. Að lokum hvetur Björk íbúa til þess að skoða í skápana sína og koma frekar með myndir á Héraðsskjalasafnið í stað þess að henda þeim.