Dagana 25. nóvember til 10. desember munu Alþjóðasamtök Soroptimista, ásamt fjölda annarra félagasamtaka, standa fyrir sextán daga átaki á heimsvísu sem nefnist „Orange the world“. Markmiðið er að vekja athygli á ofbeldi gegn konum undir heitinu „Roðagyllum heiminn“. Þessi litur táknar bjartari framtíð án ofbeldis.
Áherslan í ár felst í fræðslu um hvernig koma megi auga á og stöðva ofbeldi í nánum samböndum. Þessi fræðsla þarf að koma fyrir sjónir almennings m.a. með milligöngu Soroptimista með því að deila þeim fróðleik sem þegar er til hér á landi um þetta mikilvæga málefni. Mikilvægt er að vísa í öll úrræðin sem eru á upplýsingasíðu 112. Áhersla er á að upplýsa um mismunandi birtingu ofbeldis. Þau eru flokkuð í 6 rauð ljós. Andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og að lokum eltihrellir.
Nokkrar stofnanir munu lýsa upp með appelsínugulum lit þessa dagana, og fjölmargir staðir hafa logandi kerti merkt átakinu sýnileg. Við söfnum fé til að styrkja stofnanir sem hlúa að konum sem lent hafa í ofbeldi með því að vera með söluvarning á mörkuðum bæði í Ólafsfirði og á Dalvík
Soroptimistaklúbbur Tröllaskaga