OPINN FUNDUR UM LIST ÁN LANDAMÆRA 2009 - Akureyri

Nú er undirbúningur fyrir List án landamæra 2009 hafinn
Opinn fundur verður haldinn á Akureyri miðvikudaginn 15. október kl. 10:30

Staðsetning: 2. hæð í Ráðhúsinu (Geislagötu 9)

- List án landamæra er Listahátíð sem haldin er einu sinni á ári. Þar er pláss fyrir allskonar fólk og allskonar atriði.

- Fundurinn á miðvikudaginn er hugsaður til hugarflugs, umræðna og skoðanaskipta um
hugmyndir fyrir hátíðina 2009 á Akureyri og í nærsveitum.

- Hátíðin 2008 var fjölmenn, bæði hvað varðar sýnendur og áhorfendur, í viðhengi má sjá lýsingu á List án landamæra almennt sem og yfirlit yfir hátíðina 2008. Á heimasíðu okkar www.listanlandamaera.blog.is má sjá dagskrárbæklinga fyrri hátíða.

- Á fundinum verður farið yfir hvað hefur verið að gerast. Hvað liggur fyrir í vor?
Og síðast en ekki síst: Hvað vilja þátttakendur og skipuleggjendur sjá gerast.

- Við leitum að atriðum og þátttakendum, fötluðum og ófötluðum til samstarfs og þátttöku í hátíðinni 2009 sem hefst í Ráðhúsi Reykjavíkur miðvikudaginn 22.apríl (síðasta vetrardag) og stendur yfir í tvær vikur.

- Listafólk, aðstandendur listafólks, listnemar, leiðbeinendur, gallerýrekendur, leikhússtjórar, tónleikahaldarar, hugmyndasmiðir, smiðir og aðrir sem áhuga hafa eru sérstaklega hvattir til að mæta.

- Mjög mikilvægt væri að sjá sem flesta á fundinum. Endilega sendið okkur línu á netfangið: listanlandamaera@gmail.com , fyrir mánudaginn 13. október og látið vita um mætingu.

Bestu kveðjur og vonir um að sjá sem flesta,

Stjórn Listar án landamæra,
Margrét M. Norðdahl, framkvæmdastýra Listar án landamæra
Aileen Svensdóttir, fulltrúi Átaks
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Helga Gísladóttir, deildarstjóri hjá Fjölmennt í Reykjavík
Jenný Magnúsdóttir, deildarstjóri Sérsveitar Hins Hússins
Ása Hildur Guðjónsdóttir, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands

Netfang: listanlandamaera@gmail.com
Heimasíða: www.listanlandamaera.blog.is
Símanúmer: 691-8756

Almennt um List án landamæra

Listahátíðin List án landamæra verður haldin í sjötta sinn árið 2009. Samstarfsaðilar í stjórn hátíðarinnar eru: Fjölmennt, fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Hitt húsið, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Hafa þessir aðilar hrint af stað kröftugri hátíð sem sett hefur sterkan svip á menningarárið á Íslandi og brotið niður ýmsa múra. Á hátíðinni hafa fatlaðir og ófatlaðir unnið saman að ýmsum listtengdum verkefnum með frábærri útkomu sem hefur leitt til aukins skilnings
manna á milli með ávinningi fyrir samfélagið allt.

Hátíðin List án landamæra var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra 2003-2004. Ákveðið var að gera þetta að árlegum viðburði en sífellt fleiri þátttakendur og áhorfendur bætast við á hverju ári. Sýnileiki einstaklinga með fötlun er mikilvægur í samfélaginu og eykst með þátttöku þeirra í almennu menningarlífi.

Þátttakendur í hátíðinni gefa góða mynd af því fjölbreytta og kröftuga listalífi sem hér þrífst. Hæfileikafólk er á hverju strái en stundum skortir tækifæri fyrir það til að koma sér á framfæri. List fatlaðs fólks er því miður ekki nógu áberandi í almennu menningarumhverfi. List án landamæra stuðlar að því að breyta því og samstarf og opnun á milli hópa og ólíkra einstaklinga leikur þar stórt hlutverk.

List án landamæra leggur áherslu á að fatlaðir taki þátt í listviðburðum sem sýnendur en einnig að hvetja til þess að þeir njóti sem áhorfendur. Áhersla er jafnframt á að atburðir séu af ýmsum stærðargráðum. Það þýðir að reynt er að auka þátttöku fatlaðra listamanna á viðurkenndum sýningarstöðum jafnframt sem og að hvetja fólk til þess að standa fyrir litlum atburðum, þannig að fleiri hafi færi á þátttöku.

Fyrir utan beina listviðburði hefur List án landamæra líka stuðlað að umræðu m.a í samvinnu við við Háskóla Íslands um ímynd fatlaðra í listum og list fatlaðra.


2008

List án landamæra 2008 hófst þann 18. apríl með fjölbreyttri dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar kom fram fjöldi listamanna með margvísleg atriði eins og söng og dans og myndlistasýning var opnuð. Hátíðinni lauk svo þann 17. maí með einkasýningu Ísaks Óla Sævarssonar í gallerý Tukt.

Á hátíðinni 2008 voru atburðir 40 talsins og stóð hátíðin í tæpar 3 vikur. Þátttakendur /sýnendur voru um 600 talsins, og voru atburðir mjög vel sóttir. Atburðir af ýmsum stærðargráðum teygðu sig víða í stór og lítil, almenn og meira prívat rými sem gerði það að verkum að margir höfðu tækifæri á þátttöku.

Sem dæmi um atburði má nefna Málstofuna: Listir, menning, fötlun sem Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands stóð fyrir. Gjörning Átaks, félags fólks með þroskahömlun en þar var myndaður hringur kringum Alþingishúsið með aðstoð almennings. Opið hús var á mörgum stöðum, m.a. í sambýli þar sem allir íbúar komu að skipulagi og tóku þátt með einum eða öðrum hætti, sýndu listaverk, fluttu ljóð eða bjuggu til konfekt. Nokkrar einkasýningar voru á dagskrá, meðal annars sýning Guðrúnar Bergsdóttur á Mokka þar sem útsaumsmyndir hennar seldust nánast upp. Árleg leiklistarveisla var haldin í Borgarleikhúsinu með þátttöku 53 leikara í fimm leikfélögum sem sýndu fyrir fullum sal.
Þrjár sýningar voru í Norræna húsinu. Ein þeirra var sýning 29 listamanna frá Finnlandi sem sýndu verk unnin með Ísland og víkinga sem þema. Þá var menningarhátíð haldin á Landspítalanum að Kleppi.
Á landsbyggðinni kenndi ýmissa grasa. Á Safnasafninu á Svalbarðsströnd voru opnaðar níu sýningar, þar af tvær í samstarfi við List án landamæra. Hópurinn Outsider art í Borgarnesi sýndi í Landnámssetrinu og ljósmyndamaraþon var haldið á Egilsstöðum.

Samstarf á milli fatlaðra og ófatlaðra var töluvert en þar má nefna sem dæmi tónleika sem haldnir voru í samstarfi við tónlistatímaritið Mónitor á skemmtistaðnum Organ. Þar léku fjórar hljómsveitir skipaðar fötluðu og ófötluðu tónlistafólki. Annað dæmi er sýning, Karls Guðmundssonar og Rósu K. Júlíusdóttur, Snúist í hringi, í Ketilhúsinu á Akureyri. Alls voru samstarfsatriðin 18 talsins.

Sérstök áhersla þetta árið var á að virkja landsbyggðina til samstarfs við List án landamæra og gekk það vel. Atburðir á dagskrá hátíðarinnar voru í Reykjavík, Hafnarfirði, og Mosfellsbæ, á Akureyri, Svalbarðsströnd, Egilsstöðum, og Neskaupsstað og í Borgarnesi og Vestmannaeyjum. Stærri hátíðir voru á Akureyri og á Egilsstöðum en nokkru sinni fyrr.
Þess utan kom hópur listafólks frá Fjölmennt á Akureyri til höfuðborgarinnar til þess að vera viðstaddur opnun sýningar sinnar í Norræna húsinu en þangað komu einnig fulltrúar finnska hópsins sem sýndu á sama stað. Sönghópurinn Blikandi Stjörnur hélt til Egilsstaða þar sem haldnir voru tónleikar ásamt austfirska sönghópnun Hjarta Fimmunum.

Eins og áður sagði var sýning á verkum 29 finnskra listamanna haldin í Norræna húsinu. Í kjölfarið var fjórum íslenskum listamönnum boðin þátttaka í sýningunni ´´Strange birds, odd fishes´´ í Hamenlinna í Finnlandi og var sú sýning opnuð núna í lok maí.

Miðað við áhuga þátttakenda og gesta á hátíðinni má segja að hún hafi sannað gildi sitt og hafi fulla burði til þess að stækka og dafna á komandi árum.