Ólöf María kjörinn íþróttamaður UMSE 2014

Ólöf María kjörinn íþróttamaður UMSE 2014

Í gær var kjöri íþróttamanns UMSE lýst að Rimum í Svarfaðardal. Af því tilefni voru að venju veittar viðurkenningar til þess íþróttafólks sem hafði unnið til Íslands- eða bikarmeistaratitla, unnið sigur á Landsmótum UMFÍ, sett Íslandsmet eða verið valið í landslið, afreks- eða úrvalshópa sérsambanda. Samtals voru veittar viðurkenningar til 52 einstaklinga. Ber það merki um hversu öflugt starf fer fram hjá aðildarfélögum UMSE, jafnt hjá yngri sem eldri iðkendum.


Íþróttamaður ársins var að þessu sinni kjörin Ólöf María Einarsdóttir frá Golfklúbbnum Hamri í Dalvíkurbyggð. Hún var jafnframt útnefnd Golfmaður UMSE 2014. Í umsögn um Ólöfu segir m.a. að Ólöf er 15 ára og stundar æfingar mjög vel og æfir mikið utan æfingatíma klúbbsins, hún er mikil og góð keppnismanneskja. Hún gefur af sér við þjálfun krakkanna í klúbbnum og er þeim góð fyrirmynd. Hún varð stigameistari Íslandsbankamótaraðarinnar í 15-16 ára flokki stúlkna eftir spennandi keppni sem réðst með sigri hennar á síðasta stigamóti ársins. Hún sigraði í fjórum af sex mótum á Íslandsbankamótaröðinni í sínum flokki. Ólöf sigraði Íslandsmótið í holukeppni í sínum flokki og hafnaði í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Þá varð Ólöf Íslandsmeistari með GHD í sveitakeppni stúlkna 15 ára og yngri þar sem hún sigraði alla sína leiki. Ólöf sigraði einnig norðurlandsmótaröðina í sínum flokki. Ólöf tók þátt í þremur mótum á vegum Golfsambands Íslands á erlendri grundu en þau mót voru Junior open – 76. sæti (strákar og stelpur í sama flokki), Finnish open – 15. sæti og European young masters – 43. sæti. Ólöf var klúbbnum sínum og landi til sóma í þeim ferðum hvað hegðun og háttvísi varðar. Ólöf er í afrekshópi GSÍ 18 ára og yngri.


Annar í kjörinu varð Guðmundur Smári Daníelsson frjálsíþróttamaður UMSE 2014, frjálsíþróttamaður frá Umf. Samherjum í Eyjafjarðarsveit og þriðja varð Anna Kristín Friðriksdóttir hestaíþróttamaður UMSE 2014, frá Hestamannafélaginu Hring í Dalvíkurbyggð. Aðrir í kjörinu voru: Haukur Gylfi Gíslason, badmintonmaður UMSE 2014, frá Umf. Samherjum, Jón Elvar Hjörleifsson, borðtennismaður UMSE 2014, frá Umf. Samherjum, Sindri Ólafsson, knattspyrnumaður UMSE 2014, frá Umf. Svarfdælum, Andrea Björk Birkisdóttir, skíðamaður UMSE 2014 frá Skíðafélagi Dalvíkur, Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson, sundmaður UMSE 2014 frá Sundfélaginu Rán, Arnór Snær Guðmundsson golfmaður frá Golfklúbbnum Hamri, tilnefndur af stjórn UMSE fyrir góðan árangur í golfi og Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, frjálsíþróttakona frá Umf. Samherjum, tilnefnd af stjórn UMSE fyrir góðan árangur í frjálsíþróttum.


Við þetta sama tækifæri var einnig veitt viðurkenning og styrkur til aðildarfélags UMSE fyrir framúrskarandi barna- og unglingastarf, en samkvæmt nýjum samningi við aðal styrktaraðila UMSE, Bústólpa ehf., sem undirritaður var á árinu 2014, veitir styrktaraðilinn árlega 50.000.- kr. styrk til uppbyggingar barna- og unglingastarfi. Í samningnum segir að styrkinn skuli hljóta aðildarfélag UMSE sem að mati stjórnar UMSE hefur með einhverjum hætti skarað fram úr í barna- og unglingastarfi eða haft á sínum vegum sérverkefni sem miðar að uppbyggingu og/eða útbreiðslu barna- og unglingastarfsins. Að þessu sinni var það Hestamannafélagið Funi sem hlaut styrkinn. Í umsögn um félagið segir að í ársbyrjun 2014 reið Hestamannafélagið Funi á vaðið með kennslu í nýrri grein sem nefnist TREC. Funi hefur verið frumkvöðull innan hestamannafélaganna hérlendis hvað varðar kennslu og mótahald innan TREC greinarinnar. Fyrri hluta árs hélt Funi námskeið fyrir félagsmenn í Melaskjóli og blés til fyrsta mótsins. Áfram var haldið og var bæði keyrt áfram með námskeið og mótahald yfir sumartímann. Samhliða var komið upp sérstakri TREC keppnisbraut utanhúss á Melgerðismelum. Önnur hestamannafélög eru farin að taka Hestamannafélagið Funa sér til fyrirmyndar varðandi uppsetningu og kennslu þessarar greinar. Með frumkvæði og framsýni hefur Hestamannafélagið Funi boðið æsku félagsins upp á nýjung á sviði hestamennskunnar. Nýjung sem býður börnum og unglingum upp á að mæta til æfinga og keppni með foreldrum sínum. Átta börn tóku þátt á sýningunni Æskan og hesturinn á vegum félagsins og byggðist atriði þeirra á æfingum sem
þau lærðu á TREC-námskeiði. Þótti sýning þeirra afburðagóð. Öll TREC kennsla barna og unglinga var þátttakendum að kostnaðarlausu. Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa afhenti viðurkenninguna til Brynjars Skúlasonar, formanns Hestamannafélagsins Funa.


Eftifarandi hlutu viðurkenningar fyrir árangur sinn á árinu 2014:

  •  Andri Ásgeir Adolfsson, U15 úrvalshópur í badmintoni.
  •  Amalía Nanna Júlíusdóttir, Unglingalandsmótsmeistari í 100m bringusundi, 50m bringusundi, 4x50 m skriðsundi (blönduð sveit) og 4x50m fjórsundi (blönduð sveit) í flokki 11- 12 ára.
  •  Agnes Fjóla Flosadóttir, Unglingalandsmótsmeistari í 4x50m skriðsundi (blönduð sveit) og 4x50m fjórsundi (blönduð sveit) í flokki 11- 12 ára.
  •  Arna Hafsteinsdóttir, Landsmótsmeistari 50+ í lóðakasti í flokki 50-54 ára.
  •  Arnór Snær Guðmundsson, afrekshópi GSÍ 18 ára og yngri.
  •  Axel Reyr Rúnarsson, Íslandsmeistari í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni í flokki 13 ára.
  •  Bríet Brá Bjarnadóttir, Íslandsmeistari í svigi og alpatvíkeppni í flokki 13 ára.
  •  Dóra Kristín Kristinsdóttir, Landsmótsmeistari 50+ í golfi í höggleik og punktakeppni í flokki 50-64 ára.
  •  Elín Björk Unnardóttir, Landsmótsmeistari 50+ í 200m, 100m og 50m bringusundi og í 200m, 100m og 50m skriðsundi í flokki 50- 54 ára og í 66m fjórsundi í sama flokki. Einnig í blandaðri boðsundssveit 4x33m frjáls aðferð karla/kvenna óháð aldri.
  •  Elvar Óli Marinósson, Unglingalandsmótsmeistari í knattspyrnu (blandað lið "Ak XI") í flokki 17-18 ára.
  •  Gígja Kristín Kristbjörnsdóttir, Landsmótsmeistari 50+ í golfi í höggleik og punktakeppni í flokki 65 ára og eldri.
  •  Guðfinna Eir Þorleifsdóttir, Íslandsmeistari í svigi og alpatvíkeppni í flokki 12 ára.
  •  Guðmundur Smári Daníelsson, Íslandsmeistari utanhúss í þrístökki, sleggjukasti og kúluvarpi í flokki 16 ára og Íslandsmeistari í fjölþraut 16-17 ára. Í úrvalshópi FRÍ.
  •  Haukur Gylfi Gíslason, í landsliðshópi U17 í badmintoni.
  •  Helgi Halldórsson, Íslandsmeistari í svigi og alpatvíkeppni í flokki 12 ára.
  •  Helgi Pétur Davíðsson, Íslandsmeistari innanhúss í 60m hlaupi og 60m grindarhlaupi, Íslandsmeistari utanhúss í 100m hlaupi, 800m hlaupi og 80m grindahlaupi, Unglingalandsmótsmeistari í 100m hlaupi, 800m hlaupi, 80m grindahlaupi og í 4*100m hlaupi (blönduð sveit) í flokki 14 ára. Setti Íslandsmet í 80m grindahlaupi með tímanum 12,16 sekúndur, 200m hlaupi 24,60 sekúndur og 1000m boðhlaupi 2 mínútur og 14,35 sekúndur í flokki 14 ára. 
  • Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson, Unglingalandsmótsmeistari í 50m bakundi og 4x50m skriðsundi (blönduð sveit) í flokki 15- 18 ára. Einnig varð hann Unglingalandsmótsmeistari í 100m skeiði í unglingaflokki (14-17 ára) á Náttar frá Dalvík.
  •  Ívar Breki Benjamínsson, Unglingalandsmótsmeistari í FIFA tölvuleik (liðið "We Own FIFA").
  •  Júlíanna Björk Gunnarsdóttir, í úrvalshópi FRÍ.
  •  Jökull Þorri Helgason, Íslandsmeistari í svigi og alpatvíkeppni í flokki 14 ára.
  •  Karl Vernharð Þorleifsson, í úrvalshópi FRÍ.
  •  Ólöf María Einarsdóttir, Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 15-16 ára og Unglingalandsmótsmeistari í golfi í flokki 14-15 ára stúlkna.
  •  Rúnar Helgi Björnsson, Unglingalandsmótsmeistari í FIFA tölvuleik (liðið "We Own FIFA").
  •  Sigríður S. Jónsdóttir, Landsmótsmeistari 50+ í pönnukökubakstri.
  •  Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, Íslandsmeistari í hástökki innanhúss í flokki 15 ára stúlkna og Unglingalandsmótsmeistari í hástökki í flokki 15 ára stúlkna. Í úrvalshópi FRÍ.
  •  Svandís Erla Valdimarsdóttir, í úrvalshópi FRÍ fyrir kúluvarp.
  •  Sveinborg Katla Daníelsdóttir, Íslandsmeistari utanhúss í 400m grindahlaupi í flokki 18-19 ára.
  •  Viktor Hugi Júlíusson, Unglingalandsmótsmeistari í langstökki í flokki 13 ára pilta.
  •  Knattspyrnulið UMSE í flokki 13-14 ára stúlkna Unglingalandsmótsmeistari. Í liðinu voru: Kolbrá Kolka Guðmundsdóttir, Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, Rósa Dís Stefánsdóttir, Guðfinna Eir Þorleifsdóttir, Sandra Ósk Sævarsdóttir, Bríet Brá Bjarnadóttir, Særún Elma Jakobsdóttir, Ásrún Jana Ásgeirsdóttir, Helga Dís Magnúsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir.
  •  Bridge-sveit UMSE Landsmótsmeistari 50 +. í sveitinni voru Helgi Steinsson, Ævar Ármannsson, Árni Konráð Bjarnason og Gylfi Pálsson.
  •  Blaklið UMSE Landsmótsmeistari 50 +. Liðið skipuðu Marinó Þorsteinsson, Kristján Tryggvi Sigurðsson, Gunnar Þór Garðarsson, Gunnsteinn Þorgilsson, Jón Ingi Sveinsson og Haukur Snorrason.
  •  Stúlknasveit Golfklúbbsins Hamars varð Íslandsmeistari í sveitakeppni 15 ára og yngri í golfi. Sveitina skipuðu Ólöf María Einarsdóttir, Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Magnea Helga Guðmundsdóttir. Auk þeirra var í sveitinni Andrea Ýr Ásmundsdóttir frá GA, en félögin sendu sameiginlega sveit til keppni.
  • Ungmennasamband Eyjafjarðar óskar öllum til hamingju með frábæran árangur á árinu 2014.

Eftirtaldir aðilar fá sérstakar þakkir fyrir stuðning við kjörið:

Dalvíkurbyggð fyrir styrkveitingu vegna kjörs á íþróttamanni UMSE 2014 og fyrir stuðning við starfsemi UMSE almennt.
Bústólpi, aðalstyrktaraðili UMSE, fyrir veittan styrk til starfsemi UMSE og fyrir sérstakan styrk til barna- og unglingastarfs innan UMSE.
Landflutningar-Samskip, styrktaraðili UMSE, fyrir styrk vegna verðlaunaafhendingar og fyrir styrk til barna- og unglingastarfs innan UMSE.