Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar!
Á vordögum gaf Menntamálaráðuneytið út nýja aðalnámskrá grunnskóla í heild sinni og nú í september hófst innleiðingarferli hennar í Dalvíkurskóla. Nýja námskráin boðar töluverðar áherslubreytingar og í henni má finna margar nýjungar, svo sem sex grunnþætti menntunar sem lita skulu allt skólastarf og nýja námsmatskvarða. Aðalnámskrána má nálgast á vef Menntamálaráðuneytisins, http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/ . Skólaforeldrar og aðrir sem hafa áhuga á skólamálum eru hvattir til að kynna sér hana. Þar má jafnframt nálgast útgefin þemahefti um áðurnefnda grunnþætti.
Í Dalvíkurskóla er búið að stofna stýrihóp, sem mun halda utan um innleiðingarferlið, og útbúa aðgerðaáætlun sem unnið verður eftir næstu tvö skólaár. Allir kennarar og stuðningsfulltrúar taka beinan þátt í innleiðingarferlinu, sem og allir nemendur. Á núverandi skólaári verður megináhersla lögð á grunnþættina sköpun og jafnrétti, auk breytinga á námsmati. Leitast verður við að tengja þessa tvo grunnþætti sem mest inn í skólastarfið, jafnt í verkefnavinnu sem og skólabrag, og í vor verður efnt til smiðjudaga þar sem sköpun og jafnrétti verða í fyrirrúmi. Hvað varðar námsmatið, verða námsmatsáætlanir endurskoðaðar og nemendur 10. bekkjar útskrifaðir eftir nýju námsmatskvörðunum í vor.
Nýju aðalnámskránni fylgja spennandi tækifæri til eflingar skólastarfs og munum við kappkosta að upplýsingagjöf til foreldra og annarra íbúa byggðalagsins verði regluleg og fjölbreytt. Fréttir munu til dæmis verða birtar á vef skólans og vef Dalvíkurbyggðar, útbúin verða kynningarmyndbönd, verkefni nemenda verða til sýnis í Samkaupi Úrval og að loknum smiðjudögum í vor verður öllum íbúum byggðarlagsins boðið að sækja skólann heim og kynna sér afraksturinn.
Dalvíkurskóli og starfið sem þar fer fram skiptir alla íbúa byggðarlagsins máli, ekki einungis nemendur og starfsfólk. Það er einlæg von okkar að innleiðing nýrrar aðalnámskrár eigi eftir að verða skólanum og samfélaginu öllu til framdráttar og að við getum öll sem eitt verið stolt af skólanum okkar.
Fyrir hönd Dalvíkurskóla,
Erna Þórey Björnsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar aðalnámskrár grunnskóla