Hluti af því erlenda samstarfi sem Ísland er þátttakandi í er á vegum sveitarfélaganna með svo nefndum vinabæjakeðjum á Norðurlöndunum. Árið 1978 varð Dalvík hluti af vinabæjakeðju sem í voru Hamar í Noregi, Borgå í Finnlandi, Viborg í Danmörku og Lundur í Svíþjóð, en samstarf þeirra hafði hafist fljótlega eftir síðari heimstyrjöldina. Tilgangurinn hefur alltaf verið sá sami, að efla vináttu meðal þessara þjóða með sem víðtækustu samstarfi. Einkenni á vinabæjasamstarfi Norðurlandanna er grasrótarstarfið, þ.e.a.s. hluti samstarfsins hefur alltaf verið á könnu íbúa sveitarfélaganna í gegnum Norrænu félögin.
Nú er nýlokið vinabæjarmóti í Borgå í Finnlandi. Vinabæjarmót eru annað hvert ár og flytjast á milli sveitarfélaganna í stafrófsröð, sem þýðir að næsta mót verður í Dalvíkurbyggð árið 2011. Áður hafa tvö mót verið haldin hér, þ.e. 1991 og 2001 og þótti vel til takast í bæði skiptin, a.m.k. er mikill áhugi hjá frændum okkar að sækja okkur heim því það sé svo eftirminnilegt fyrir þá sem hafa gert það áður og spennandi fyrir hina. Dalvíkurbyggð hefur líka mikla sérstöðu í þessu sambandi því hin sveitarfélögin eru svo miklu fjölmennari, Borgå, Viborg og Lundur með um 100.000 íbúa og Hamar um 25 þúsund. Þetta eru háskólabæir með merkar dómkirkjur og langa sögu.
Skrifað undir formlegan samstarfssamning
Á þessu vinabæjarmóti í Borgå var skrifað undir samstarfssamning sveitarfélaganna þar sem þau setja samstarf sitt í fastara form og hvert þeirra tekur að sér að halda utanum ákveðin verkefni.
Þessum verkefnum verður síðan fylgt eftir á komandi vinabæjarmótum og þau þróuð eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þau verkefni sem farið verður af stað með eru eftirfarandi:
1. Lýðræði í norrænu samhengi, þar sem tilgangurinn er að vinna sameiginlega að frekari þróun lýðræðis í sveitarfélögunum.
2. Miðlun þekkingar, þannig að með aukinni samvinnu verði stofnanir hæfari til að mæta kröfum dagsins og framtíðarinnar. Forgangsröðun næstu ára verði: Börn og ungmenni, almenn þátttaka, lýðheilsa, öldrunarmál og umhverfi og orka
3. Norræn samvinna í alþjólegu samhengi. Vinabæirnir fimm eru allir hluti af heimshluta sem verður sífellt alþjóðlegri. Sum sveitarfélögin hafa mikla reynslu af fjölþjóðlegu samstarfi og hafa víðtæk tengsl. Þá reynslu og tengsl má nýta í norrænu samstarfi.
4. Menningarsamstarf og félagasamtök. Grasrótarstarfið, sem er hluti af hinu norræa vinabæjarsamstarfi, er einstakt. Hvergi í heiminum á sér stað jafn fjölbreytilegt samstarf og á milli Norðurlandanna. Vinabæjarsamstarfið gefur íbúunum og norrænu félögunum kost á aðgengilegu samstarfi og að hnýta vinabönd yfir landamæri og kynnast þannig menningu, sögu, tungumáli og umhverfi og hvað er líkt og hvað ólíkt með þessum þjóðum. Þetta er mikilvægt í heimi sem verður sífellt alþjóðlegri.
5. Þátttaka ungu kynslóðarinnar til að vekja og efla áhuga ungmenn fyrir norrænu samstarfi í alþjóðavæddum heimi. Nemendur og ungmenni vinabæjanna eiga að fá tækifæri til að kynnast hinum Norðurlöndunum með því að læra um umhverfi og aðstæður hvers annars.
Þetta verkefni tók Dalvíkurbyggð að sér að móta og halda utanum en hugsunin er m.a. sú að mynduð verði keðja vinaskóla í vinabæjunum. Vinnuhópur með fulltrúum frá grunnskólum allra vinabæjanna skipuleggur vinnuna. Nemendur fást við tiltekið verkefni árlega um menningu, náttúru og umhverfi, eða líf barna á viðkomandi stað. Hver skóli vinnur verkefnið á sínum forsendum og sendir á hina skólana. Þannig mun safnast upp efni á öllum stöðunum um hina vinabæina og hin Norðurlöndin.
Einnig að sveitarfélögin séu meðvituð um að nýta þau tækifæri sem gefast til samskipta og nemendaskipta ungmenna á aldrinum 16 til 18 ára, og jafnvel eldri. Um getur verið að ræða mismunandi tækifæri til lengri eða skemmri dvalar í framhaldsskólum vinabæjanna. Einnig að sveitarfélögin taki á móti hópum hvert frá öðru sem vilja kynnast eða læra um útivist og náttúru, menningu og ekki síst unglingamenningu á Norðurlöndum. Hvert sveitarfélag getur verið með sérstakt tilboð eða mætt óskum ólíkra hópa. Þarna heldur íþrótta- og æskulýðsfulltrúi um taumana.
6. Sameiginleg ESB verkefni. Þrjú af þessum fimm löndum eru í ESB og vinna mikið í samstarfsverkefnum sem það styður. Þetta eru ýmist svæðisbundin verkefni eða verkefnabundin. Um getur verið að ræða áhugavert samstarf fyrir Dalvíkurbyggð.
Vinabæjamót, skemmtun og vinna
Vinabæjamót eru bæði skemmtun og vinna fyrir þá sem þau sækja. Á þessu móti var fundað um samstarfið framundan og samstarfssamninginn sem bæjarstjórar vinabæjanna skrifuðu undir. Einnig var boðið uppá heimsóknir og leiðsögn um söfn í Borgå og tónleika með Runebergskören í dómkirkjunni. Mótinu lauk með messu og málsverði sem norræna félagið í Borgå bauð til. Við færðum hinum bæjarstjórunum matreiðslubókina þeirra Júlla og Friðriks V. en þeim þykir Fiskidagurinn mikli afar áhugaverður. Einnig fékk ein af tehettunum Freyja nýtt heimili í Borgå.
Mótið sóttu fyrir hönd sveitarfélagsins bæjarstjóri og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi. Borgå er góður bær heim að sækja með einstaklega heillegum og fallegum gömlum bæjarhluta þar sem eldgömul timburhús hýsa ýmsa starfsemi s.s. gistihús, verslanir og gallerý og svo matsölustaði. Verst þótti íslendingum hve evran er dýr og þar með allt sem þar var á boðstólum. En dvölin var bæði fróðleg og ánægjuleg.