Norðurströnd færir út kvíarnar

Fiskverkunarfyrirtækið Norðurströnd á Dalvík hefur fest kaup á meginhluta fiskvinnsluhúss er áður var í eigu Krækis, og Byggðastofnun auglýsti til sölu á dögunum. Um er að ræða fiskvinnsluhús, samtals um 1478,5 m2, að Hafnarbraut 7, 11 og 15 á Dalvík, auk skrifstofuhúsnæðis og starfsmannaaðstöðu. Hefðbundin fiskvinnsla verður áfram í húsnæði Norðurstrandar við Ránarbraut, en marningsvinnsla, hausun, slæging, handflökun á steinbít og öll hráefnismóttaka verður í nýja húsnæðinu.

Mikil uppbygging hefur verið hjá Norðurströnd undanfarin ár, framleiðslan verið stóraukin og afurðaflokkum fjölgað. Á sl. tveimur árum hefur veltan þrefaldast og á þessu ári stefnir í að velta fyrirtækisins nemi um 1,5 milljörðum króna.

Það kann að skjóta nokkuð skökku við að fiskvinnslufyrirtæki og það kvótalaust skuli vera að stækka við sig nú á þessum síðustu og verstu tímum. Norðurströnd hefur ekki yfir neinum kvóta að ráða og er allt keypt á mörkuðum, að meðaltali um 20 tonn á dag.

Guðmundur St. Jónsson, framkvæmdastjóri Norðurstrandar sagði í samtali við Bæjarpóstinn að á undanförnum árum hefði mikil uppbygging átt sér stað hjá fyrirtækinu. „Við höfum stórbætt aðstöðuna hjá okkur, endurnýjað tæki og stóraukið framleiðsluna og jafnframt aukið verðmæti hennar. Það má segja að þetta höfum við gert óstuddir, því erfitt hefur verið fyrir fiskvinnslufyrirtæki að fá lánafyrirgreiðslu undanfarin ár. Gríðarlega mikil uppbygging sl. ár gerir það að verkum að fyrirtækið heldur sjó í dag og gerir okkur kleift að fara út í þessa viðbót. Þá er mjög lítil yfirbygging hjá fyrirtækinu og við höfum gríðarlega gott starfsfólk og það á stóran þátt í velgengninni."

Hefðbundin fiskvinnsla verður áfram í húsnæði Norðurstrandar. Hins vegar verða alls kyns aukabúgreinar sem reynt hefur verið að sinna samhliða hefðbundinni fiskvinnslu fluttar í nýja húsnæðið. Má þar nefna marningsvinnslu o.fl. auk þess sem ýmsar hugmyndir um aukavinnslu eru á teikniborðinu sem hægt verður að sinna í nýja húsnæðinu. Þá verður hausun og slæging flutt í nýja húsnæðið, handflökun á steinbít, auk þess sem öll hráefnismóttaka fyrir fyrirtækið verður í nýja húsnæðinu.

Kaupa afskurð

Guðmundur segir að Norðurströnd kaupi afskurð af fiskvinnslum á Eyjafjarðarsvæðinu. Afskurðurinn er síðan hakkaður (marinn) og seldur til Frakklands. „Með auknu rými gefst okkur kostur á að vinna marninginn frekar. T.d. móta hann í kökur til að gera hann aðgengilegri fyrir neytendur og um leið söluvænlegri. Við höfum líka verið að leika okkur með að þróa „snakk” úr fiskroði, en ekki haft pláss né mannskap til að sinna því að einhverju viti. Okkur langar til að leggja meiri rækt við það núna. Það eru svo sem margar hugmyndir í gangi, en ætli við látum ekki þessa upptalningu nægja að sinni.”

Guðmundur segir að höfuðstöðvar Norðurstrandar, skrifstofa og tilheyrandi verði í nýja húsnæðinu og er gert ráð fyrir að skrifstofurnar verði fluttar í þessari viku.

Starfsmönnum fjölgar

Aðspurður um hvort fjölga þurfi starfsmönnum, segir Guðmundur að reiknað sé með að 6-10 ný störf skapist. „Það er ekki alveg hægt að segja nákvæmlega til um fjöldann, en það skýrist á næstu dögum þegar vinnslan verður komin í gang.”

Frétt fengin af www.dagur.net