Fundur var haldinn í gær í Ráðhúsinu þar sem kynnt var fyrir fyrirtækjum mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Um fimmtán manns voru mættir og hlýddu á Fjólu Björk Jónsdóttur aðjúnkt við Háskólann á Akureyri leiðbeina hvernig og hvað ætti að vera í umsögn fyrir styrk. Það var almenn ánægja með fundinn og miklar upplýsingar fyrir þá sem nú fara að skrifa sínar umsóknir. Dalvíkurbyggð mun halda áfram að liðsinna þeim sem eru að sækja um styrk þannig að umsóknirnar séu sem best úr garði gerðar. Umsóknarfrestur er til 19. febrúar.
Ferðaþjónustuaðilar eru nú á fullu að skrifa sínar umsóknir en umsóknarfrestur rennur út 5. febrúar. Margir aðilar hafa fengið yfirlestur og tilsögn um hvað betur má fara í þeirra umsóknum og mun það verða áfram til boða.
Freyr Antonsson upplýsingafulltrúi hefur umsjón með að leiðbeina og fara yfir umsóknir og er öllum velkomið að óska eftir aðstoð.