Fimmta miðvikudagsganga Ferðafélags Svarfdæla verður farin frá bílastæðinu norðan Dalvíkurkirkju klukkan 17:15 þann 25. júní. Þá verður ferðinni heitið fram Böggvisstaðadal að Kofa. Göngufólk getur valið um hvort það gengur sömu leið til baka eða fer hringinn og niður Upsadalinn. Nokkur bleyta er ennþá á þessari leið og því æskilegt að vera á góðum gönguskóm til að blotna ekki í fæturna. Áætlað er að ferðin taki 3 klukkustundir og því ekki úr vegi að hafa með sér nesti sem snætt verður við Kofa.
Stjórn ferðafélagsins vonast til að sjá sem flesta en stöðug fjölgun hefur orðið í þessum miðvikudagsgöngum.
Vakin er athygli á að gönguvika Dalvíkurbyggðar hefst n.k. laugardag og stendur næstu viku þannig að engin stutt ganga verður þá vikuna. Fólk er hvatt til að kynna sér dagskrá gönguvikunnar sem er að finna á slóðinni http://www.dalvikurbyggd.is/gonguvika/ .