Í gær opnaði í Gamla skólanum á Dalvík yfirlitssýning með verkum J.S. Brimars en tilefnið er að í ár hefði listamaðurinn orðið 90 ára gamall. Sýningin verður opin frá kl. 13:00-21:00 alla daga út júní.
J.S.Brimar eða Jón Stefán Brimar Sigurjónsson var fæddur árið 1928 á Dalvík þar sem hann starfaði sem húsamálari stærstan hluta ævinnar. Brimar, eins og hann var kallaður, nýtti allar lausar stundir til að mála og var gríðarlega afkastamikill listamaður en eftir hann liggja yfir 800 verk svo vitað sé. Ættingjar J.S. Brimars hófu, í tilefni afmælisins, söfnun á ljósmyndum af og upplýsingum um verk hans með það að markmiði að gefa út listaverkabók með úrvali verka hans auk þess að koma þeim á framfæri. Í kjölfarið spratt upp sú hugmynd að halda yfirlitssýningu með verkum hans á Dalvík og prýðir afrakstur þeirrar vinnu nú veggi Gamla skólans, yfir 300 verk. Aðstandendur hans hafa því unnið mikið þrekvirki við að safna þessum upplýsingum og verkum saman og má þar, að öðrum ólöstuðum, helstan nefna Ragnar Þ. Þórodsson en hann hefur verið driffjöðurin í þessari vinnu og hefur aldrei horfið frá því ætlunarverki sínu að koma nafni Brimars og verkum hans á framfæri.
Brimar lést í desember 1980, aðeins 52 ára að aldri. Þá var hann nýbúinn að hengja upp sýningu í Ráðhúsinu á Dalvík, alls 39 myndir, og rann allur ágóði sýningarinnar til Dalbæjar. Þessi gjafmildi hans einkenndi hann alla tíð en hann var mjög tregur til að taka við greiðslum fyrir verkin sín. Eins hafði hann þann sið að skilja eftir sig verk þar sem hann vann við húsamálun. Verkin hans eru því víða til og eins og áður hefur komið fram, urðu þegar upp var staðið yfir 800.
Við opnun sýningarinnar í gær kom fram í máli Sigríðar Gunnarsdóttur listfræðings, sem á veg og vanda af uppsetningu sýningarinnar, að Brimar hefði verið einstakur hæfileikamaður. Hann átti einkar auðvelt með að tileinka sér mismunandi stíla og gætti áhrifa margra listamanna á listsköpun hans. Verkin hans eru því afar fjölbreytt og sögðu sumir sýningargesta við opnunina að það væri eins og margir listamenn væru þar að sýna saman enda var hans mottó að lifa frá degi til dags og leyfa áhrifum hverrar stundar að stjórna listsköpuninni. Þrátt fyrir að stílarnir sé margir og ólíkir má sjá rauðan þráð í gegnum verkin hans sem er sterk og kraftmikil litanotkun og má að sumu leyti segja að það einkenni hann sem listamann. Ef grannt er skoðað má líka sjá andlegan tón í mörgum verka hans, eins og hann máli heim inn í heiminn, og í grein sem birtist í Norðurslóð 1980 segir hann sjálfur ,,Það er stundum eins og eitthvað yfirnáttúrulegt stjórni mér þegar ég er að vinna. Eins og það sé ekki ég sjálfur sem held á penslinum. Þá mála ég og mála klukkustundum saman og stend svo eftirá steinhissa á þessu öllu saman.“
Sigríður komst einmitt þannig að orði í gær að það væri eins og Brimar væri með heiminn inn í sér.