Ljósmyndasamkeppni Dalvíkurbyggðar hefst formlega á morgun fimmtudaginn 29. maí. Finnbogi Marinósson ljósmyndari á Akureyri heldur fyrirlestur um lykilatriði í ljósmyndun frá klukkan 17:30 til 19:30 í Safnaðarheimili Dalvíkurkirkju.
Íbúar Dalvíkurbyggðar geta sent inn eins margar myndir og þeir vilja. Einnig getur hver sem er sent inn myndir í opnu flokkana. Myndirnar verða að vera úr Dalvíkurbyggð en mega vera frá öllum tímum. Ljósmyndir mega bæði vera á tölvutæku formi eða framkallaðar. Myndum skal skila á skrifstofu Dalvíkurbyggðar en einnig er hægt að skila inn rafrænt á www.dalvik.is. Koma þarf fram við skil, nafn ljósmyndara, lýsing og nöfn þess sem ljósmynd er af. Verðlaun verða veitt fyrir framúrskarandi myndir í eftirgreindum flokkum en einnig verða veittar viðurkenningar og glaðningur fyrir óvæntar og skemmtilegar myndir.
Hús í Dalvíkurbyggð á öllum tímum, lokaskiladagur 24. júlí.
Fólk í Dalvíkurbyggð á öllum tímum, lokaskiladagur 24. júlí.
Íþróttamyndir frá Dalvíkurbyggð , lokaskiladagur 24. júlí.
Landslags og stemmningsmyndir, lokaskiladagur 24. júlí.
10 ára afmælismynd Dalvíkurbyggðar, lokaskiladagur 24. júlí.
Gönguvikan, mynd vikunnar, lokaskiladagur 24. júlí.
Fiskidagurinn mikli, opinn flokkur, lokaskiladagur 25. ágúst.
Dalvíkurbyggð séð með augum ferðamanns, opinn flokkur, lokaskiladagur 25. ágúst.
Ljósmyndasamkeppni Dalvíkurbyggðar er styrkt af Menningarsjóði Sparisjóðs Svarfdæla og Menningarráði Eyþings og bakhjarli þess Rarik.