Sunnudaginn 17. febrúar síðastliðinn birtist viðtal við formann KJALAR, stéttarfélags í almannaþjónustu, Örnu Jakobínu Björnsdóttur í sjónvarpsfréttum RÚV þar sem kemur fram að minni sveitarfélög sinni ekki mannauðsmálum sem skyldi.
Dalvíkurbyggð er um 1900 manna samfélag og telst því líklega vera eitt af þeim minni sveitarfélögum sem formaður KJALAR vísar til í viðtalinu. Varðandi það sem fram kom í viðtalinu er rétt að upplýsa um eftirfarandi fyrir hönd Dalvíkurbyggðar:
- Starfsmannasamtöl/starfsþróunarsamtöl eru fastir liðir í starfsemi Dalvíkurbyggðar og markmiðið er, samkvæmt starfsáætlunum sviða, stofnana og fyrirtækja, að allir starfsmenn sveitarfélagsins séu boðaðir í starfsmannasamtöl á tímabilinu janúar – apríl ár hvert. Þar er meðal annars farið yfir starfslýsingar og símenntunarþörf.
- Stjórnendur gera ár hvert ráð fyrir, í sínum starfs- og fjárhagsáætlunum, símenntun fyrir sig og starfsmenn stofnana og fyrirtækja Dalvíkurbyggðar. Haustið 2012 var til dæmis unnið að svokölluðu MARKVISS verkefni þar sem staða símenntunar starfsmanna í öllum stofnunum og fyrirtækjum sveitarfélagsins var kortlögð samhliða því sem starfsánægja og aðrir þættir voru mældir. Niðurstöður verða notaðar til þess að styrkja það sem bæta þarf en almennt voru niðurstöður ánægjulegar.
- Unnið hefur verið að markvissri fræðslu fyrir stjórnendur og haustið 2012 hófst Stjórnendaskóli Dalvíkurbyggðar í samvinnu við Háskólann á Bifröst. Jafnframt hefur jafningjafræðsla verið að festa sig í sessi í mörgum stofnunum síðustu ár. Dalvíkurbyggð hefur eitt fárra sveitarfélaga samþykkt undirbúnings/símenntunartíma fyrir ófaglært starfsfólk leikskóla með það að markmiði að styðja það til að verða sem hæfast til að sinna störfum sínum. Jafnframt er fundartími og námskeiðsdagar leikskóla Dalvíkurbyggðar með því meira sem þekkist á Íslandi í dag og var staðinn vörður um þennan tíma því hann er afar dýrmætur fyrir alla starfsþróun.
- Hjá Dalvíkurbyggð liggur fyrir viðbragðsáætlun gegn einelti og kynferðislegri áreitni og starfandi er eineltisteymi fyrir starfsmenn sveitarfélagsins. Árlega tekur stærsti hluti starfsmanna sveitarfélagsins starfsmannakönnun þar sem spurt er út í líðan á vinnustað, einelti, samskipti og fleira
- Dalvíkurbyggð hefur sett sér Starfsmannastefnu og starfsmannahandbók, sem er endurskoðuð reglulega.
- Í framkvæmdaáætlun með Mannréttindastefnu Dalvíkurbyggðar er gert ráð fyrir árlegri úrtakskönnun á launum starfsmanna í sambærilegum störfum til að greina hvort um kynbundinn launamun er að ræða.
- Stjórnendur sveitarfélagsins kappkosta að leysa þau ágreiningsmál sem upp geta komið án þess að leita utanaðkomandi aðstoðar, en leita til sérfræðinga þegar þess þarf.
- Starfsmannafélag Dalvíkurbyggðar er starfrækt, óháð aðild að stéttarfélögum, og hlutverk þess er m.a. að auka ánægju og samkennd starfsmanna Dalvíkurbyggðar og auka þá tilfinningu starfsmanna fyrir Dalvíkurbyggð sem einni heild og samstarfi milli stofnana. STDB heldur til dæmis árshátíð starfsmanna eða aðrar skemmtanir, s.s. jólatónleika.
- Dalvíkurbyggð hefur gert samning við fyrirtækið Vinnuvernd um trúnaðarlæknaþjónustu og felur þjónustan m.a. í sér að starfsmenn geta leitað til hjúkrunarfræðings með sín mál, án endurgjalds og fá reglulegt fréttabréf um vinnuvernd.
- Sérstakur Starfsmannastjóri er ekki starfandi hjá Dalvíkurbyggð.
Bæjarstjóri, sviðsstjóri félagsmálsviðs, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs.