Úr vöndu var að velja í ár og mátti nefndin hafa sig alla við þegar kom að vali á fallegustu skreytingum ársins 2007. Víða um sveitarfélagið mátti finna stílhreinar og skemmtilegar skreytingar og vill nefndin hvetja alla þá sem hafa tök á að bregða undir sig betri fætinum fyrir jólin að gera svo. Á mögum bæjum í Svarfaðardal er fallega skreytt og á Árskógssandi eru víða fallega skreytt jólatré sem gleðja augað.
Í ár voru veitt ein aðalverðlaun og þrjár viðurkenningar og eftir þó nokkrar vangaveltur komst dómnefndin að eftirfarandi niðurstöðu:
Verðlaunin í ár hljóta þau Óskar Óskarsson og Lilja Björk Ólafsdóttir í Hringtúni 38 en nefndinni þótti gaman að sjá hversu vel húsið var skreytt, skreytingarnar vel settar upp og nýtur húsið sín ákaflega vel skreytt jólaljósunum.
Viðurkenningar hjóta eftirfarandi hús:
- Vegamót. Bjarni Gunnarsson og Kristín Aðalheiður Símonardóttir. Á húsið lýsa rauðir kastarar og eru jólaljós vel uppsett í bland.
- Sakka, Svarfaðardal. Dagbjört Jónsdóttir og Gunnsteinn Þorgilsson. Bæði hús og útihús eru fallega skreytt sem gefur býlinu heildrænt útlit.
- Skíðabraut 15. Sigurður Jóhannsson og Jóna Berg Garðarsdóttir - Sérstaklega fallegar og vandaðar gluggaskreytingar sem hafa breyst frá ári til árs.
Dómnefndin vill jafnframt vekja athygli á:
- Ásvegi, Dalvík, gatan er ákaflega falleg í heild sinni - öll húsin fallega skreytt og einnig eru víða fallega skreytt hús við Böggvisbraut.
- Uppsölum, Svarfaðardal - fyrir ævintýralegar jólaskreytingar sem gleðja augað.
- Laugarhlíðartorfunni en þar hafa íbúar sett upp falleg jólaljós í hvert hús sem gefur svæðinu afar hlýlegt yfirbragð.
- Ytra Hvarfi í Svarfaðardal sem er fallega skreytt og vakti jólasveinn í baði athygli dómnefndar.
Dómnefndinni þótti gaman að sjá hversu mikið og fallega er skreytt víða og eins og áður sagði átti dómnefndin erfitt starf fyrir höndum.
Njótið ljósanna og hátíðarinnar. Gleðileg Jól.