Í ár munu jólasveinarnir bera jólapóstinn út í áttugasta og fimmta skipti. Tekið verður á móti póstinum á þorláksmessu í Dalvíkurskóla frá kl. 13:00-16:00 þar sem hann verður flokkaður af nemendum 7. bekkjar og settur í jólasveinapokana. Starfsmenn skólans koma einnig að móttöku og flokkun póstsins í sjálfboðavinnu. Verð er 100.- fyrir kortið og 500 kr. fyrir pakkann og allur ágóði rennur til bókakaupa á skólabókasafn skólans.
Jólasveinum hefur fjölgað jafnt og þétt og umfangið aukist. Nú bera jólasveinarnir póst út í Svarfaðardal, Skíðadal og á Dalvík.
Á aðfangadagsmorgun leggja sveinarnir af stað með póstinn, rjóðir og líflegir. Raða sér niður á götur og í sveit og berja að dyrum. Margir íbúar tala um að þetta sé ómissandi liður í undirbúningi jólanna. Að bíða spenntur eftir sveinunum og taka á móti þeim með bros á vör og gjarnan gauka að þeim smá góðgæti. Það er eitthvað við það að heyra hrópin í þeim á aðfangadegi og heyra höggin dynja á dyrum. Í einstaka tilfelli hefur verið barið heldur hraustlega .
Í rafrænum heimi dagsins í dag hefur kortum eðlilega fækkað en vonandi höldum við áfram að senda einhver kort svo þessi gamli siður leggist ekki af.
Á Jólavef Júlla er sagt frá þessum sið og að skömmu eftir að Ásgeir P. Sigurjónsson gerðist kennari á Dalvík 1932, kom hann á fót barnadeild innan Ungmennafélags Svarfdæla handa þeim sem höfðu ekki aldur til þess að ganga í félagið. Börnin kusu sér stjórn og héldu fundi mánaðarlega undir stjórn Ásgeirs. Deildin tók sér margt fyrir hendur og eitt af því var að sjá um árlega jólatrésskemmtun á Dalvík. Það var svo rétt fyrir jólin 1938 að Ásgeir kennari gerði tilllögu um að deildin tæki upp þann sið að fá jólasvein til að bera út bréf og böggla í hús á Dalvík á aðfangadag. Hugmyndin hlaut samþykki og vakti almennan fögnuð viðstaddra. Á litlu jólunum var svo tilkynnt að tekið yrði við jólasveinapósti á Þorláksdag, en jólasveinnin kæmi öllu til skila á aðfangadag. Eldri deild barnaskólans veitti póstinum viðtöku, krakkar lásu sundur og flokkuðu í húsin. Fyrsti jólasveinninn sem annaðist póstburð, var þréttán ára strákur, Friðjón Kristinsson, seinna póstafgreiðslumaður á Dalvík. Allt gekk samkvæmt áætlun, Friðjón kom öllu til skila og var langt liðið kvölds er hann hélt heim. Til dagsins í dag hafa börn enn þennan hátt á á Dalvík eftir 85 ár, og aldrei fallið út ár, nú flykkjast þau í hópum. Pósturinn hefur vaxið drjúgt í tímanna rás, um 1982 þá voru sveinarnir 15 talsins, yfirleitt þrír í hóp einn aðalsveinn og tveir hjálparmenn, drógu þeir póstinn á sleða eða sleðum. Í dag eru rúmlega 40 jólasveinar sem fara um og koma jólapóstinum til skila.