Nýibær, Flæðavegur 4 (Jónshúsið)
(Svarfdælingar II bindi bl. 447)
Þurrabúðin Nýibær á Böggvisstaðasandi virðist vera reist árið 1884 og var torfbær. Árið 1887 flyst Jón Stefánsson þangað og 1899 reisti hann timburhús mikið sem enn stendur, elsta húsið á Dalvík, oft kallað Jónshús.
(Fasteignarmat 1931)
Lóð 1 ha. Leigulóð girt með gaddavír. Íbúðarhús 7,5 x 5,63 m vegghæð frá kjallara 3,13 m rishæð 2 m. Timburhús á steyptum kjallara útveggir og þak járnklætt. Á 1 hæð, 6 herbergi og forstofa, eldhús og geymslur í kjallara. Vandað hús og hirðing og viðhald gott, rakalaust og hlýtt. Einn steyptur reykháfur.
Hlaða úr steinsteypu og þak úr járni 5,63 x 3,75 m
Skúr úr steinsteypu og þak úr járni 3,75 x 2,5 m (fjós) 3 timburskúrar með pappaþaki 5,63 x 3,75 m og 5,63 x 3,75 m og 3,75 x 1,88 m.
(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Portbyggt steinhús á hlöðnum kjallara, tvílyft. Húsið lítið sem ekkert skemmt nema reykháfur sem er ónýtur. Húsráðendur Kristján Eldjárn Jónsson og Þórey Friðbjörnsdóttir
Stutt saga húss
Samkvæmt Sögu Dalvíkur 1. bindi bls. 318 smíðaði Jón Stefánsson húsið að mestu sjálfur en gluggana smíðaði Þorsteinn sonur hans. Húsið mun hafa verið eitt af fyrstu húsum á Dalvík sem ekki var byggt úr torfi og grjóti. Kjallararými reyndist heldur lítið, einkum var lágt til lofts. Tók Jón því til þess bragðs nokkrum árum síðar að lyfta húsinu af grunni og steypa rúmgóðan kjallara. Með þeim aðgerðum fékkst sæmilegt smíðaverkstæði og geymsla.
Í eldhúsinu á Nýjabæ var fyrsta pósthús Dalvíkinga en Jón Stefánsson var pósthirðingamaður frá lokum nítjándu aldar fram á fjórða áratug þessarar aldar.
Í taugaveikisfaraldi 1908 varð Nýibær eins konar stofufangelsi 13 - 14 manns.
Í dag er húsið í eigu afkomenda Jóns og er notað sem sumarhús.
Athugasemd um hús
Árið 1985 voru gerðar endurbætur á húsinu. Bárujárnsklæðning sem hafði verið á húsinu frá upphafi var tekin, húsið einangrað og klætt aftur með nýju bárujárni. Útitröppur endurnýjaðar einnig í upphaflegri mynd. Það voru afkomendur Jóns Stefánssonar fyrsta eigenda hússins sem stóðu fyrir þeim endurbótum.
Athugasemd um umhverfi húss
Þess má geta að í garðinum við húsið stendur minnisvarði frá árinu 1983 um Jón Stefánsson og konu hans, Rósu Þorsteinsdóttur, en minnisvarðinn var reistur af afkomendum þeirra. Á hann eru letraður eftirfarandi ljóðlínur eftir Davíð Stefánsson
...allt, sem grær, ber merki fornra minja.
Hvert moldarfræ er vöxtur tveggja kynja.
Og sami réttur er þeim báður borinn.
Frá barnsins vöggu liggja ævisporin
að myrkri gröf, sem eilífð vakir yfir.
Við yrkjum sömu jörð - og stofninn lifir.