Góður fundur var haldinn á Hótel Sóley í gær fimmtudag þar sem um 20 aðilar tengdir ferðaþjónustu komu saman. Efni fundar var kynning og hvatning til aðila að sækja um styrk í mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til eflingar ferðaþjónustu.
Fundurinn var mjög líflegur og var greinilegt að kraftur er í ferðaþjónustunni en hún þarf stuðning þar sem um mjög erfiðan rekstur er að ræða. Afkoma þessara fyrirtækja ræðst á þremur til fjórum mánuðum á ári og það má ekkert fara úrskeðis á þeim tíma. Fólk sagði skoðanir sínar umbúðalaust og vegna þess var fundurinn mjög gagnlegur þar sem sjónarhorn komu skýrt fram og mikið sem má vinna betur. Dalvíkurbyggð þarf að reyna sitt allra besta til að halda utan um þetta fjöregg sitt og gera rekstarumhverfi þessara fyrirtækja viðunandi. Haldið verður áfram að vinna með aðilum í ferðaþjónustu og reyna að sjá fyrir hvað við getum gert betur.
Það var einnig greinilegt á þessum fundi að mikill vilji var til samstarfs milli aðila og er það fagnaðarefni. Samvinna mun koma öllum til góða þar sem margar raddir eru sterkari en ein til að lokka ferðamenn til Dalvíkurbyggðar. Strax núna eru aðilar búnir að taka sig saman og ætla að sækja um styrk í verkefni þar sem fleiri en þrjú fyrirtæki kom að.
Samvinna aðila í ferðaþjónustu hefur verið í gangi í félaginu Ferðatröll en þar eru flestir aðilar félagar. Aðalfundur verður haldinn fljótlega og er um að gera að gera það félag ennþá sterkara og fá inn aðila í ferðaþjónustu sem er ekki félagar. Það vantar fólk í stjórn og er fólk hvatt til að ganga í félagið og láta að sér kveða.
Ræddar voru tvær tillögur sem Dalvíkurbyggð mun sækja um styrk til úr þessum sjóði. Annars vegar er um að ræða samvinnu verkefni tveggja til þriggja sveitarfélaga um rekstur vefsíðu sem yrði gefið það hlutverk sem Tröllaskagastofa átti að sinna en sú hugmynd hefur verið lengi í smíðum en ekki orðið úr ennþá. Hins vegar er um að ræða stofnun og rekstur á Náttúrfræðasetri á Húsabakka. Það hefur verið rætt lengi og margar mjög skemmtilegar hugmyndir sem eru þar í gangi. Setrið mun vinna að ásamt öðru að því að gera gullegg okkar Friðland Svarfdæla aðgengilegt fyrir okkur íbúanna og gesti.
Það var rætt um að reyna að skapa umræðu grundvöll fyrir því að hittast einu sinni í mánuði og skiptast á skoðunum og finna fleti á samstarfi og er það vonandi að slíkt takist.