Nú um helgina dvöldu yfir 50 krakkar á Húsabakka og æfðu sig á ýmis strokhljóðfæri undir leiðsögn kennara. Krakkarnir komu víðs vegar að af Norðurlandi úr tónlistarskólunum á Húsavík, Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Sauðárkróki. Að loknum ströngum æfingabúðum á laugardeginum var slegið upp tónleikum á sunnudaginn í Bergi við ágæta aðsókn og undirtektir aðstandenda og annarra áhugasamra tónleikagesta. Með ungu hljóðfæraleikurunum voru í för bæði kennarar og foreldrar sem sáu um matseld og annað utanumhald á Húsabakka. Einnig var farið í sund í Sundskála Svarfdæla og þá var haldin kvöldvaka á laugardagskveldinu. Þóttu skólabúðir þessar takast með miklum ágætum og segir Kaldo Kiis skólastjóri tónlistarskóla Dalvíkur það einstakt að geta boðið upp á allar aðstæður fyrir svona viðburði eins og raunin er á Húsabakka.