Himbriminn er fallegur fugl og hefur seiðandi hljóð sem heilla marga. Hann er aftur á móti ekki vandur að meðulum þegar kemur að því að verja óðal sitt. Hann helgar sér stórt land svo jafnan rúmast ekki nema eitt par á hverri tjörn eða vatni. Fyrir tveim árum settist himbrimapar að á Hrísatjörn og hóf þar varp. Þetta gladdi marga fuglaskoðendur því það er gaman að horfa á hann í köflóttu peysunni og með bláa trefilinn, og hver ný tegund sem verpir í friðlandinu er ánægjuefni - alla jafna. En nú eru farnar að renna tvær grímur á menn því svo virðist sem landnám himbrimans sé á kostnað flórgoðanna sem hægt og bítandi hafa fjölgað sér á tjörninni undanfarin ár. Seinni part sumars hefur lítið sést til flórgoðnanna sem komu í vor og spurning hvort þeir séu alveg horfnir og hvort himbrimanum sé um að kenna.