Í síðustu viku tók Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í notkun nýja sérútbúna bifreið, sem verður notuð til reglulegra ferða út á land svo færa megi þjónustu HTÍ nær notendum.
Stöðin heimsækir Norðurland dagana 15.-18.september n.k. og verður á DALVÍK (við Heilbrigðisstofnunina) FIMMTUDAGINN 17.SEPTEMBER N.K. FRÁ KL 14-18
Bifreiðin gerir HTÍ kleift að auka þjónustu heyrnardeildar sinnar við viðskiptavini um land allt. Hún er fullbúin heyrnarmælinga- og þjónustustöð, búin öllum þeim tækjum og verkfærum sem sérfræðingar HTÍ þurfa til greiningar og meðferðar heyrnarmeina. Stefnt er að því að með nettengingum og fjarbúnaði í bílnum geti læknar og heyrnarfræðingar stofnunarinnar jafnvel sinnt skjólstæðingum frá höfuðstöðvum í Reykjavík í framtíðinni..
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, var fyrsti viðskiptavinur hinnar nýju færanlegu heyrnarþjónustustöðvar. Við vígslu þjónustubifreiðarinnar nefndi ráðherra, að það væri stefna stjórnvalda að bæta nærþjónustu miðlægra þjónustustofnana þegar kostur er og þessi nýja þjónusta HTÍ væri kærkomin nýjung og bætti aðgengi landsbyggðarfólks að þjónustu Heyrnar-og talmeinastöðvar verulega.
Einnig veitti Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, upplýsingar um verkefnið og hlutverk HTÍ. Nefndi hann ýmis dæmi um hvernig bifreiðin getur aukið þjónustu við landsbyggðina. „Auk almennrar þjónustu við heyrnarskerta og heyrnartækjanotendur opnast nú möguleiki á að hægt verði að skima heyrn allra nýbura sem fæðast á landinu og það í nærumhverfi foreldra. Hingað til hefur náðst að skima heyrn velflestra barna sem fæðast á Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar en öðrum foreldrum síðan verið stefnt til fundar við heyrnarfræðinga HTÍ á fáum stöðum á landinu. Með reglulegum ferðum um landið gefst okkur kostur á að ná til allra nýbura og án mikillar fyrirhafnar fyrir foreldra.“
Kristján nefndi einnig að í tengslum við ferðir stöðvarinnar verði aukið við fræðslustarf til almennings og umönnunarstétta eftir því sem kostur sé.
„Þá vonumst við til að geta þjónustað aldrað vistfólk á dvalar-og elliheimilum um land allt mun betur en hingað til því heyrnarskerðing aldraðra er vangreind og vanmeðhöndluð. Góð heyrn bætir lífsgæði þess hóps verulega.“, sagði Kristján Sverrisson að lokum.
Ferðir stöðvarinnar um landið verða auglýstar nánar á næstunni.
HTÍ ER MEÐ STARFSSTÖÐ Á AKUREYRI (OPIÐ MIÐVIKUD OG FIMMTUD) OG HEFUR FRÁ ÁRSBYRJUN STARFRÆKT HEYRNAR-MÓTTÖKU Á SAUÐÁRKRÓKI ANNAN HVERN FÖSTUDAG FRÁ KL 12-16. SÚ ÞJÓNUSTA MUN ÁFRAM VERÐA Í BOÐI.
Nánari upplýsingar: Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ – símar 581 3855, 691 3855
Sjá einnig vefsíðu okkar WWW.HTI.IS og Facebook síðu HTÍ