Í dag hefst heilsuátak í Sundlaug Dalvíkur. Allir geta verið með og það kostar ekkert. Þeir sem skrá sig formlega í átakið fá möppu afhenta í afgreiðslu sundlaugarinnar.
Mappan inniheldur ýmsar upplýsingar sem snerta heilsusamlegt líferni en hún er ætluð sem hjálpartæki fyrir þátttakendur meðan á átakinu stendur.
Í möppunni má meðal annars finna:
Skráningarblað - staðfesting á þátttöku í heilsuátaki (án allra kvaða)
Mælingablað fyrir þá sem vilja fylgjast með árangri sínum með mælingum
Æfingaáætlanir héðan og þaðan af netinu
Matseðlar og uppástungur að matseðlum í tengslum við æfingar
Mataruppskriftir héðan og þaðan af netinu
Fróðleikur um æfingar, brennslu, mataræði almennt og nýjan lífsstíl
Átakið byggist á því að viðkomandi setji sér markmið og fylgi því eftir með æfingum og aga í mataræði í ákveðin tíma í einu.
Þetta á að leiða viðkomandi að lokamarki sem hann/hún verður vonandi ánægð(ur) með að 8 vikum loknum.
Skráðu þig strax í dag!!
Mundu að það gerir enginn æfingar fyrir þig - það minnkar heldur enginn matarskammtinn þinn eða minnir þig á að borða hollt fæði....ef þú vilt það ekki sjálf(ur)!
Með skráningu í átakið ertu ekki endilega að ákveða að láta fitumæla þig eða mæla þyngd eða ummál. Þú ræður því sjálf(ur) hvort þú gerir það.
Við leggum þó áherslu á að þú nýtir þér þetta aðhald sem fylgir því að fylgjast reglulega með...og þá hvatningu sem fylgir því að sjá árangurinn svart á hvítu!
Þeir sem skrá sig eiga möguleika á vinningum fyrir góðan árangur að átakinu loknu - þau verðlaun verða veitt fyrir lækkun fituprósentu og fækkun kílóa af fitu á tímabilinu.
Verðlaun verða veitt í lokahófi sem við ætlum okkur að koma fyrir í kring um páskana eða eftir þá.
Vinsamlegast skráið netföngin ykkar og gsm númer á skráningarblöðin, við ætlum að reyna að vera í góðu sambandi meðan á þessu stendur.
Bjarni Rúnarsson verður við í ræktinni á miðvikudögum kl. 18:00 og laugardögum kl. 10:00.
Til að byrja með má reikna með að hann verði mikið upptekinn við að leiðbeina og mæla þá sem skrá sig í átakið - vinsamlegast sýnið honum því þolinmæði.
Í ræktinni er einnig margt annarra sem getur vel sagt frá einstaka æfingum og aðferðum, notum okkur það.
Elín Unnarsdóttir sundþjálfari er tilbúin að veita upplýsingar um sund og bætta tækni i sundi. Hún er í sundlauginni við þjálfun þrjá daga vikunnar, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 16:30 - 18:00.
Þau eru bæði tilbúin að hitta fólk eða veita leiðbeiningar við önnur tækifæri ef það hentar betur og þau geta það yfir höfuð - hafið samband við þau beint eða starfsfólk í sundlaug.
Við verðum með samkomur á tímabilinu þar sem boðið verður upp á fræðslu af einhverju tagi, upplýsingar og hvatningu. Hikið ekki við að hafa samband ef þið hafið einhverjar góðar hugmyndir um slíkt.
Munið eftir því að þeir sem eiga tímabilskort í rækt og sund hjá okkur hafa aðgang að
2 tímum í viku á Bjargi á Akureyri.
Ef eitthvað er hafið þá samband við starfsfólk í sundlaug eða undirritaðan í gsm síma 896-3133, skrifstofusíma 460-4913 eða á netfanginu bjarni@dalvik.is