Ágætu bæjarbúar, kæru þjóðhátíðargestir, gleðilega þjóðhátíð.
Í dag er 17. júní – þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Í dag eru 74 ár frá því Ísland varð lýðveldi. Og ég gæti haldið langa tölu um Jón Sigurðsson og um fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fyrr á árum. En einmitt núna langar mig eiginlega bara að tala um fótbolta. Kannski ekki endilega fótbolta sem slíkan heldur um svona augnablik eins og í gær þegar hjarta manns bólgnar út af þjóðarstolti. Stolti yfir því að vera Íslendingur. Þegar litla eyjaþjóðin okkar í norður Atlantshafi sem telur 337 þúsund manns vinnur stórsigur á knattspyrnuþjóðinni Argentínu upp á 44,7 miljónir manna. Við gerðum reyndar jafntefli kann einhver að segja og það er satt að úrslit leiksins voru jafntefli 1-1. En ennþá einu sinni stóðu Íslendingar uppi sem sigurvegarar.
Hannes að verja víti frá Messi er endurspeglun þess að Davíð sigraði Golíat. Myndin góða sem gengur um samfélagsmiðlana þar sem Birkir reisir Messi upp af vellinum gæti eins verið af Gunnari á Hlíðarenda að reisa við vin sinn Njál ef ekki væri fyrir skeggið á Messi og klæðnaðinn á köppunum. Já, á svona stundum þá er þjóðin sem einn maður. Einn stoltur maður. Stoltur yfir því að vera Íslendingur.
Og þetta þjóðarstolt er svo auðvelt að færa heim í heiðardalinn. Eins og í gærkvöldi þegar við keyrðum heim af ættarmóti í Borgarfirði. Eftir þoku á heiðum og rigningu í dölum þá komum við á Hillurnar rétt upp úr miðnætti. „Velkomin í Dalvíkurbyggð“ sagði skiltið góða og við blasti miðnætursólin og sló gullrauðum bjarma á Ströndina, Víkina og Dalina.
Já ég er komin heim og brosi móti sól og hjarta mitt er jafn bólgið af þjóðarstolti í dag eins og það var í gær yfir leiknum. Núna af stolti yfir sveitarfélaginu okkar og íbúum þess. Lítum bara rúma viku aftur í tímann. Skólalok í grunnskólunum og unga fólkið streymir út í sumarið. Sigur Dalvíkur/Reynis í fyrsta heimaleik sumarsins. Nýr bátur siglir í heimahöfn á Árskógssandi. Krakkarnir okkar í 6.flokki Set-mótsmeistarar á Selfossi. Ný sveitarstjórn tók til starfa þar sem einhugur og samheldni verða vonandi ríkjandi næstu árin. Stórsýning Brimars á Demöntum Dalvíkur opnaði í Gamla-skóla sem fékk andlitslyftingu að því tilefni. Blakfélagið Rimar vígði nýju strandblaksvellina sunnan við Íþróttamiðstöðina þar sem gífuleg sjálfboðavinna liggur að baki. Hestamannafélagið Hringur hélt glæsilegt gæðingamót í Hringsholti. Og áfram mætti telja og ég er örugglega að gleyma einhverju merkilegu og ég biðst velvirðingar á því.
Á sama tíma baða heimamenn og gestir sig í sjó á Hauganesi og bjór á Árskógssandi. Skoða hvali á Eyjafirði og stunda jöklasport á fjallatindum. Nýir grunnar eru teknir að íbúðahúsum og allt er á fullu í Dalvíkurhöfn. Og lífið gengur sinn vanagang þennan bjartasta tíma ársins þegar sólin varla sest, náttúran iðar af lífi og maður tímir varla að sofa. Að lifa og njóta. Þetta er staðurinn og stundin.
Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð er 20 ára í ár og í dag höfum við í höndum góða og að mörgu leyti hagkvæma rekstrareiningu ef horft er blákalt á tölur og staðreyndir. Og Dalvíkurbyggð er falleg náttúruparadís með dýrmætan mannauð og mikla möguleika. En það sem mér finnst best að horfa á er búsetan. Því þróunin í mörgum sveitum landsins hefur verið sú að innstu bæir fara í eyði eða undir frístundabúsetu. Og þannig færist sagan niður dalina að búseta á innstu bæjum færist alltaf neðar og neðar því það er erfitt að vera á jaðrinum.
En hérna í Dalvíkurbyggð er önnur saga að skrifast. Á Þverá í Skíðadal una Bryndís og Dagur með dætur sínar tvær og byggja upp sína tilveru í sveitinni. Hinu megin ár reka Bergmenn ferðaþjónustufyrirtæki á heimsmælikvarða. Í Koti í Svarfaðardal búa Guðrún og Atli með börnin sín þrjú og tryggja þannig búsetu fram í fremsta mögulega byggða bú sveitarfélagsins. Þetta er dýrmætt og okkur öllum mikils virði því á meðan blómstrar allt sveitarfélagið frá sjávarströndum fram til innstu dala. Hér er engin auðn og hér er ekkert tóm. Hér er kjarkur, þor og áræðni. Hérna er líf, list og leikur, gleði og gaman.
Takk fyrir mig, gleðilega hátíð og njótið dagsins.