Gervisgrasvöllur í fullri notkun

Mynd fengin að láni frá dalviksport.is en ljósmyndari er Jóhann Már Kristinsson
Mynd fengin að láni frá dalviksport.is en ljósmyndari er Jóhann Már Kristinsson

Nýr gervigrasvöllur var tekinn í notkun um helgina en yngriflokkar Dalvíkur fengu þann heiður að leika fyrsta leikinn á vellinum. Sá leikur fór fram sl. föstudag og Dalvík/Reynir spilaði síðan fyrsta heimaleik sinn í sumar þar sem strákarnir okkar sigruðu 4-1.

Heilt yfir hefur framkvæmdin á vellinum gengið vel en framkvæmdartíminn varð örlítið lengri en gert var ráð fyrir í upphafi vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, en allt gekk upp á endanum og hefur glæsilegur völlur nú verið tekinn í fulla notkun en æfingar allra flokka fara nú fram á vellinum - ungum sem öldnum til mikillar gleði.

Í frétt á dalviksport.is segir að mikilvægt sé að fólk geri sér grein fyrir að loka frágangur á umhverfi vallarins sé ekki búinn og að tengivinna í aðstöðuhúsinu sé eftir.
Völlurinn er einn glæsilegasti knattspyrnuvöllur landsbyggðarinnar og uppfyllir hann strangar gæðakröfur FIFA. Völlurinn er upphitaður, með vökvunarbúnaði ásamt lýsingu. 
Vinna við fjármögnun á lýsingunni er að klárast og má gera ráð fyrir að ljósin verði sett upp með haustinu. 

Um framkvæmdina:
Hönnun og ráðgjöf: AVH og VSO ráðgjöf
Jarðvinna: Steypustöðin Dalvík
Pípulagnir: Flæði ehf. (Magnús M.)
Rafmagn: Electro Co.
Múrverk: Júlíus Viðarsson
Gervigrasið og undirlag: Metatron ehf.
Verkstjórn: Björn Friðþjófsson
Uppsteypa og fl.: Tréverk ehf.

Opinber vígsla vallarins verður auglýst síðar en þangað til er um að gera að fjölmenna á þá leiki félagsins sem framundan eru. 
Meðfylgjandi eru myndir frá fyrsta heimaleik sumarsins teknar af Hauki Snorrasyni