Nýtt fuglaskoðunarhús er nú risið við norðausturhorn Hrísatjarnar. Uppetning þess er liður í bættu aðgengi að Friðlandi Svarfdæla sem Náttúrusetrið á Húsabakka gengst fyrir en heiðurinn af smíði þess og hönnun á Kristján Hjartarson. Nemendur í Dalvíkurskóla eiga þó einnig stóran hlut að máli en vaskur smíðahópur setti saman grindina og negldi á hana innri klæðningu á lokadögum skólans í vor. Þá aðstoðuðu krakkar úr bæjarvinnunni Kristján við að flytja húsið og reisa það við Hrísatjörnina á dögunum. Þá var við sama tækifæri smíðuð ný göngubrú á afrennslislækinn úr Hrísatjörn. Húsið og brúin voru síðan óformlega vígð á lokadegi gönguviku í Dalvíkurbyggð þann 4. júlí sl. Til stóð að taka þá einnig í notkun ný upplýsingaskilti um gróður við gönguleiðina út í Hrísahöfða en vegna tafa í prentun varð það að bíða betri tíma.
|
Gönguhópur við nýja fuglahúsið |