Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2016 var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þann 12. apríl 2017 og vísað til seinni umræðu í sveitarstjórn.
Aðlögun og aðhaldssemi í rekstri hefur nú skilað þeim árangri að samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta er hagnaður af rekstri sem nemur tæpum 250 milljónum sem er methagnaður hjá sveitarfélaginu. Er þetta um 125 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlun með viðaukum. Tekjur samstæðunnar námu ríflega 2,1 milljarði og hafa aldrei verið hærri. Skatttekjur námu ríflega 1,4 milljarði og þar af framlag Jöfnunarsjóðs tæplega 483 milljónum. Þjónustutekjur voru um 691 milljón.
Aðalsjóður var rekinn með 44 milljóna hagnaði. Eignasjóður er með jákvæða rekstrarniðurstöðu sem nemur 96 milljónir. A hlutinn sem samanstendur af aðalsjóði og eignasjóði var því samtals rekinn með hagnaði upp á 140 milljónir.
Um rekstrarniðurstöðu B hluta er það að segja að öll B-hluta fyrirtækin skiluðu afgangi og nam hagnaður B-hluta 110 milljónum. Samtals varð því hagnaður A og B hluta 250 milljónir eins og áður segir.
Rekstrargjöld samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða námu 1.703 milljónum og voru ríflega 26 milljónum lægri en áætlun og standa nánast í stað á milli áranna 2015 og 2016. Annar rekstrarkostnaður er 40 milljónum lægri en áætlun en launakostnaður var hins vegar 14 milljónum hærri en áætlun.
Samstæðan þ.e. er A og B hluti skiluðu framlegð upp á 19,9% sem er besta niðurstaða undanfarinna ára en framlegðarhlutfall samstæðunnar hefur verið um 15% en fór lægst í 9,8% árið 2015.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar var rúmlega 363 milljónir sem er hækkun upp á 169 milljónir frá fyrra ári og hækkar sem hlutfall af rekstrartekjum úr 10,3% árið 2015 í 17,1% fyrir árið 2016.
Fjárfestingar ársins voru um 273 milljónir en á móti nam söluverð rekstrarfjármuna um 112 milljónum sem gaf samtals söluhagnað upp á 72 milljónir. Á árinu voru greidd upp langtímalán að upphæð 171 milljón og rúmlega 15 milljónir voru greiddar vegna lífeyrisskuldbindinga. Heimild var í fjárhagsáætlun að taka 150 milljónir að láni en niðurstaðan var að taka 100 milljónir. Uppgreiddar langtíma- og lífeyrisskuldir samstæðunnar umfram lántöku námu því rúmlega 86 milljónum. Með því móti er skuldaviðmiðunarhlutfall A og B hluta sveitarfélagsins í 53,7% á mælikvarða viðmiðunarskilgreiningar Eftirlitsnefndar sveitarfélaga en sambærileg tala árið 2015 var 69,2%.
Eigið fé samstæðunnar hækkar úr rúmlega 2,1 milljarði í tæplega 2,5 milljarða og er eiginfjárhlutfall samstæðunnar nú komið í 63% og hækkar um 4 prósentustig á milli ára. Töluverðar framkvæmdir eru framundan hjá sveitarfélaginu og stefnt er að því að reksturinn hafi svigrúm til að standa straum af nauðsynlegum framkvæmdum. Ýmislegt hefur áunnist á undanförnum árum og er þar helst að nefna að heildarskuldir hafa lækkað úr 105% skuldaviðmiði árið 2011 í 53,7% árið 2016.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri; Netfang:bjarnith@dalvikurbyggd.is eða í GSM: 8995841