Helstu forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 eru eftirfarandi:
Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.
Fasteignamat í sveitarfélaginu hefur hækkað umtalsvert á árinu, misjafnt eftir staðsetningu. Til að viðhalda þjónustustigi er álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki óbreytt eða 0,50%. Á móti lækkar lóðarleiga úr 1,28% í 1,0% af fasteignarmati lóðar. Gjaldskrár hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu hækka ekki á milli ára en sorphirðugjöld hækka um 2,5%. Þrátt fyrir hækkun á gjaldskrá sorphirðu þá nægja tekjur ekki til að dekka kostnað. Því er ljóst að ef ekki á að hækka gjaldskrá sorphirðu meira þarf að gera betur í flokkun sorps og meðferð úrgangs þó íbúar Dalvíkurbyggðar séu almennt að standa sig vel í þeim málum.
Aðrar gjaldskrár taka almennt mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna lífskjarasamninganna. Hagur íbúa var hafður að leiðarljós og hækkunum stillt í hóf eins og hægt var. Þannig hækka almennar gjaldskrár að hámarki um 2,5%, sumar hækka ekki. Í þeim gjaldskrám sem taka vísitöluhækkun var ekki gert ráð fyrir meira en 2,5% hækkun og að ný viðmiðunarvísitala verði 1. september 2019. Þetta má sjá nánar í umfjöllun um gjaldskrár 2020.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 var miðað við fjárhagsáætlun 2019 með viðaukum án einskiptisaðgerða. Þar sem fjárhagsáætlunarvinna hefst snemma var tekið mið af þjóðhagsspá Hagstofu Íslands að sumri 2019. Þannig eru helstu forsendur verðbólga og almennar verðlagshækkanir 3,2% og launavísitala 5%.
Fjárhagsáætlanir deilda eru undirbúnar hjá fagráðum, sviðsstjórum og forstöðumönnum og hefur hagsýni og hagkvæmni verið höfð að leiðarljósi bæði við almennan rekstur og starfsmannahald. Fyrir það ber að þakka. Á árinu 2019 voru samþykktar nýjar innkaupareglur sveitarfélagsins og eru þær grunnurinn við innkaup á aðföngum og þjónustu.
Helstu fjárfestingar og viðhald:
Gert er ráð fyrir heildarfjárfestingu í eignasjóði upp á 230 milj. króna. Þar eru reyndar nokkrir óvissuþættir sem áætlað er fyrir. T.d. kaup á Selárlandinu við Hauganes, en ekki hefur verið samið við Ríkið um kaupverð. Gert er ráð fyrir framlagi til endurbóta á Dalbær sem ætti að vera greitt af Ríkinu og verður lögð áhersla á meiri aðkomu Ríkisins en eingöngu úr framkvæmdasjóði. Áætlað er að kaupa nýjan slökkvibíl og er áætlað að þau kaup skiptist á tvö næstu ár, bíll og búnaður í bíl. Gerð hefur verið langtímaáætlun til sex ára um uppbyggingu hjá Golfklúbbnum, Skíðafélaginu og Hestamannafélaginu og er fyrsti hluti settur á framkvæmd á árinu 2020. Haldið verður áfram með annan áfanga skólalóðar Dalvíkurskóla. Reiknað er með yfirtöku frá Rarik á götulýsingu í þéttbýliskjörnum í sveitarfélaginu. Eins og alltaf er gert ráð fyrir umtalsverðum fjárhæðum í framkvæmdir við götur, gangstéttir og göngustíga. Stærstu einstöku liðirnir þar eru hlutdeild Dalvíkurbyggðar í göngustíg frá Olís að Böggvisstaðaafleggjara og yfirlögn frá Ægisgötu 23 að Aðalbraut á Árskógssandi. Nokkrir minni fjárfestingaliðir eru á áætlun 2020 og fer ég ekki út í nánari sundurliðun á þeim hér. Í heild fara um 40 miljónir í viðhald hinna ýmsu eigna sveitarfélagsins og tæpar 40 miljónir í búnaðarkaup hjá stofnunum sveitarfélagsins. Til upplýsinga hefur verið sett inn umsókn í framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að byggja göngubrú í Friðlandi Svarfdæla við hitaveitustokkinn en ekki ljóst hvort við fáum áheyrn og því ekki gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun.
Hjá B-hluta fyrirtækjum er gert ráð fyrir fjárfestingum þannig:
Hjá Hafnasjóði 22 milj. króna.
Hjá Vatnsveitu 7 milj. króna.
Hjá Fráveitu 40 milj. króna og eru stærstu liðirnir þar hreinsistöð á Árskógssandi og hreinsibúnaður við Norðurstöð.
Hjá Hitaveitu 52 milj. króna og er þar stærsti hlutinn stækkun húsnæðis við Sandskeið. Einnig er gert ráð fyrir í rekstri hitaveitu að fara í frekari vinnu við að umhverfis- og arðsemismeta fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Brimnesá. Með smávirkjun þar gæti sveitarfélagið lagt sitt að mörkum við kolefnisjöfnun en áætluð stærð slíkrar virkjunar gæti fullnægt raforkuþörf sveitarfélagsins og rúmlega það. Stefnt er að kynningu á verkefninu fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar seinna í vetur.
Helstu lykiltölur:
Áætlaðar heildartekjur samstæðunnar (A- og B- hluta) eru 2.490 miljónir króna fyrir árið 2020. Þær skiptast þannig að áætlaðar skatttekjur eru 1.195 milljónir, framlög Jöfnunarsjóðs 604 miljónir og aðrar tekjur 690 miljónir króna.
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðunnar eru áætlaðar 2.322 miljónir króna. Niðurstaða samstæðunnar án fjármagnsliða er því áætluð jákvæð um 167 milljónir króna en að teknu tilliti til fjármagnsliða er áætluð niðurstaða jákvæð um 105 miljónir króna. Aðrar lykiltölur á áætlun 2020 eru:
Rekstrarniðurstaða Aðalsjóð kr 755.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs kr 92.814.000 jákvætt.
Fjárfestingar Samstæðu A- og B- hluta, kr 351.588.000.
Áætluð niðurgreiðsla lána kr 94.802.000.
Áætluð ný lántaka kr 30.000.000.
Veltufé frá rekstri kr 366.059.000.
Veltufjárhlutfall 1,07
Þriggja ára áætlun 2021-2023:
Í þriggja ára áætlun er er ekki gert ráð fyrir neinum stórum breytingum í rekstri sveitarfélagsins. Horft var fram í tímann með stærri fjárfestingar og eru þær helstar í eignasjóði að ljúka kaupum á búnaði í slökkvibíl, styðja við endurbætur á Dalbæ, ljúka endurbótum á skólalóð Dalvíkurskóla, áframhaldandi uppbygging á götum, gangstéttum og göngustígum og stuðningur við uppbyggingu íþróttafélaganna.
Hjá B-hluta fyrirtækjum eru stærstu framkvæmdir á þriggja ára áætlun:
Hjá Vatnsveitu, stofnæð og tenging í Þorvaldsdal.
Hjá Fráveitu lokafrágangur við hreinsistöðvar og útræsi á Hauganesi, Árskógssandi og Dalvík.
Hjá Hitaveitu smávirkjun í Brimnesá og boranir.
Hjá Hafnasjóði eru smærri framkvæmdir á þriggja ára áætlun en á fimm ára áætlun er 40% þátttaka í endurbótum á Norður-Suðurgarði samkvæmt samgönguáætlun.
Lykiltölur í þriggja ára áætlun eru þessar helstar:
2021:
Rekstrarniðurstaða Samstæðu A- og B-hluta kr 132.171.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Aðalsjóð kr 14.681.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs kr 94.050.000 jákvætt.
Fjárfestingar Samstæðu A- og B- hluta, kr 268.000.000.
Áætluð lántaka 0 kr
Veltufé frá rekstri kr 399.976.000.
2022:
Rekstrarniðurstaða Samstæðu A- og B-hluta kr 129.109.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Aðalsjóð kr 15.816.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs kr 91.977.000 jákvætt.
Fjárfestingar Samstæðu A- og B- hluta, kr 275.500.000.
Áætluð lántaka kr 50.000.000.
Veltufé frá rekstri kr 406.718.000.
2023:
Rekstrarniðurstaða Samstæðu A- og B-hluta kr 118.299.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Aðalsjóð kr 13.906.000 jákvætt.
Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs kr 94.320.000 jákvætt.
Fjárfestingar Samstæðu A- og B- hluta, kr 349.500.000.
Áætluð lántaka kr 50.000.000.
Veltufé frá rekstri kr 407.547.000.
Þakkir:
Fjárhagsáætlunin var unnin í mjög góðri samvinnu í sveitarstjórn og er lögð fram í einingu, fyrir það ber að þakka.
Þá vil ég einnig nota tækifærið og þakka öllum þeim sem á einn eða annan hátt komu að gerð fjárhagsáætlunar. Sviðsstjórum og starfsfólki á skrifstofum Dalvíkurbyggðar þakka ég fyrir frábæra vinnu og þolinmæði við fjárhagsáætlunargerðina sem var unnin við öðruvísi aðstæður en venjulega og mikið álag oft á tíðum. Enn á ný kom vel í ljós hversu mikil verðmæti eru fólgin í góðu starfsfólki sem þekkir sitt fag og er tilbúið til að fórna sér í ný hlutverk. Takk kærlega fyrir ykkar góðu störf nú sem áður.
Fjárhagsáætlarnirnar, starfsáætlanir og gjaldskrár verða birtar á heimasíðu Dalvíkurbyggðar í desember.
Katrín Sigurjónsdóttir
Sveitarstjóri.