Foreldrar, þetta er bréf til ykkar !!

Eftirfarandi bréf er samvinnuverkefni forvarnarhóps Fiskidagsins mikla, Félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar og Íþrótta- æskulýðsfulltrúa Dalvíkurbyggðar.


Við foreldrar njótum þeirra forréttinda að bera ábyrgð á börnum okkar a.m.k. þar til þau eru 18 ára gömul. Við höfum þennan tíma til að njóta samverustunda, fylgjast með þroska þeirra, leiðbeina þeim og miðla gildum. Þessi tími kemur ekki aftur, hann verður ekki endurtekinn og ekki settur í bið. Foreldrar geta haft afgerandi áhrif á hvað þeirra unglingur gerir með því að fylgja honum vel eftir, vera góð fyrirmynd og bjóða upp á samveru sem er gefandi fyrir unglinginn. Kannanir sýna að unglingar sem verja miklum tíma með fjölskyldunni eru líklegri til að forðast áhættuhegðun og standast neikvæðan hópþrýsting.


Sérstakar reglur skv. barnaverndarlögum, gilda um útivistartíma barna og ungmenna. Rétt er að benda á að þetta eru lög, ekki ábendingar. Í barnaverndarlögunum kemur fram að frá 1. maí til 1. september megi börn, 12 ára og yngri ekki vera á almannafæri eftir kl. 22:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn á aldrinum 13 til 16 ára mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 24:00, nema þau séu á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Ekki þarf annað en að skoða á hvaða tímum sólarhrings börn byrja að fikta með áfengi og aðra vímugjafa, hvenær alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér stað, til að skilja að útivistarreglurnar eru ekki settar fram af neinni tilviljun.


Með þessu bréfi viljum við kalla ykkur til samvinnu með að taka á þessum málum og fylgja eftir settum reglum um löglegan útivistartíma og að senda börn ykkar ekki ein á Fiskidaginn mikla. Börn og unglingar eiga ekki að vera úti eftirlitslaus seint að kvöldi og alls ekki eftir miðnætti, sérstaklega við aðstæður sem geta skapast í fjölmenni eins og í kringum Fiskidaginn mikla. Reynslan hefur sýnt okkur að dagskráin gengur vel yfir daginn en vandamálin snúa flest að næturlífinu og umgengni þá. Íbúar Dalvíkurbyggðar, sem allflestir koma að hátíðinni með einum eða öðrum hætti, vilja vernda hátíðina sína þannig að við getum áfram boðið öllum landsmönnum til okkar á hátíð, sem er og hefur verið með það að leiðarljósi að fjölskyldan skemmti sér saman, og eigi góðar stundir á Dalvík.


Fiskidagurinn mikli, Félagsþjónusta Dalvíkurbyggðar, Íþrótta – og æskulýðsfulltrúi hvetja foreldra til að axla ábyrgð á uppeldishlutverki sínu og gefa ekki ólögráða ungmennum leyfi til að sækja skemmtanir og viðburði án þess að ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi þeirra eða að fjölskyldan fari saman og allir njóti vímulausrar helgi saman.


Kveðja,
Eyrún Rafnsdóttir, félagsmálastjóri
Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla
Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi
Lilja Björk Ólafsdóttir, forvarnarráðgjafi