Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli var haldin í blíðskaparveðri síðastliðinn laugardag og sótti fjöldi gesta Dalvíkurbyggð heim. Hátíðin fór friðsamlega fram og skemmtu gestir sér saman í mesta bróðerni.
Hátíðin fór fram með hefbundnu sniði og hófst með vináttukeðjunni á föstudagskvöldinu en hún er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Að þessu sinni var það Geir Jón Þórisson sem flutti vinuátturæðuna. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar og má með sanni segja það það hafi enst út helgina. Að lokinni vináttukeðju hófst hið geysivinsæla fiskisúpukvöld en þá buðu 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð upp á fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð upp á súpu var með sína eigin uppskrift og úr varð því fjölbreytt og skemmtilegt fiskisúpusmakk. Mikill fjöldi fólks rölti um bæinn þetta kvöld þar sem að súpa, vinátta og einstök samvera var í aðalhlutverki.
Fiskidagurinn mikli hófst síðan á hafnarsvæðinu á Dalvík á laugardeginum kl. 11 stundvíslega og stóð yfir, með fjölbreyttri dagskrá, fram til kl. 17:00. Dagurinn var haldinn í 18. sinn þetta árið og líkt og fyrri ár var eindæma veðurblíða þennan dag en Fiskidagurinn mikli virðist vera á sér samningi hjá veðurguðunum. Um 130.000 matarskammtar runnu ofan í gesti en heyra mátti að matseðilinn í ár hefði verið einn sá allra besti frá upphafi. Fjöldi atriða var á sviðinu og hátíðarsvæðinu allan daginn og fengu allir eitthvað við sitt hæfi.
Frá upphafi hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson, með hjálp góðra manna, sett upp fiskasýningu á Fiskideginum mikla og var engur brestur á því þetta árið. Áhugi fólks á sýningunni er mikill og þetta árið bar einstaklega vel í veiði þar sem sýningunni barst hákarlstegundin hamarshaus sem vakti mikla lukku.
Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg. Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðraði Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með skipstjórnarfræðslu á Dalvík. Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra. Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms. Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.
Hátíðinni lauk síðan með stórglæsilegum Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru: Helgi Björnsson, Jón Jónsson, Helga Möller, Eiríkur Hauksson, Katrín Halldóra, Ragnheiður Gröndal, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Páll Rósinkrans og svo öllum að óvörum kom Bubbi Mortheins og sló botninn í glæsilega tónleika á eftirminnilega hátt. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti síðan lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð. Aldrei hafa fleiri verið samankomnir fyrir neðan kaupfélagsbakkann, mannhafið var mikið og tignarlegt. Björgunarsveitin á Dalvík á mikið lof skilið fyrir eina bestu flugeldasýningu sem að sett hefur verið upp hér á landi, algjörlega mögnuð sýning sem að verður seint toppuð.
Ljósmyndarinn Bjarni Eiríksson tók meðfylgjandi myndir