Fjölmenni á málþingi um menningarstefnu

Fjölmenni á málþingi um menningarstefnu

Er uppbygging menningarmála á réttri leið? Er Berg menningarhús að stefna í rétta átt? Er kórastarf að líða undir lok eða er það rétt að byrja? Eru áherslur í tónlistarlífi réttar? Viljum við hafa Byggðasafn, Náttúrusetur eða önnur setur? Hvað á að gera við Ungó og Sigtún í framtíðinni? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum var velt upp á stórskemmtilegu málþingi um menningarmál í Dalvíkurbyggð sem fram fór í Bergi menningarhúsi í gær, 27. febrúar.


Í tilefni þess að nú fer fram endurskoðun á menningarstefnu sveitarfélagsins ákvað Menningarráð Dalvíkurbyggðar að efna til málþings um menningarmál. Málaflokkur menningarmála hefur vaxið mjög á síðustu árum og því þótti við hæfi nú, við upphaf endurskoðunar menningarstefnunnar, að fá sem flesta að borðinu, fá sem flest sjónarmið fram og velta við sem flestum steinum sem varða menningarmál.


Málþingið var mjög vel heppnað og ríflega 50 manns lögðu leið sína í Berg. Í upphafi fundar voru innlegg frá formanni menningarráðs, Frey Antonssyni, erindi frá Ágústi Einarssyni um hagræn áhrif menningamála, og erindi frá Írisi Ólöfu Sigurjónsdóttur um sjálfsmynd samfélags, glærur . Að því loknu hófst umræða á fimm borðum þar sem allir gátu komið sínum skoðunum á framfæri undir fimm megin umræðuefnum. Umræður urðu fjörlegar og ýmis sjónarmið komu fram enda markmið fundarins að gefa íbúum tækifæri til að koma beint að endurskoðun menningarstefnunnar.

Menningarráð mun nú setjast yfir niðurstöður fundarins og hafa þær til hliðsjónar í áframhaldandi starfi.