Félagsmiðstöðin Týr er starfrækt á efri hæð Víkurrastar. Þar er í boði heilmikið starf fyrir alla grunnskólanemendur ásamt starfi fyrir 16-20 ára unglinga. Forstöðumaður þar er Viktor Már Jónasson en auk hans vinna í félagsmiðstöðinni Sigrún Björk Sigurðardóttir og Arnór Gunnarsson.
Þrátt fyrir að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar miðist við alla grunnskólanemendur er mesta áherslan lögð á að ná til unglinga úr 8.-10. bekk. Að byrja á unglingastigi getur reynst mörgum erfitt og þar getur félagsmiðstöðin spilað stórt hlutverk við að efla sjálfstraust og sjálfsþekkingu unglinganna í gegnum leik og starf. Félagsmiðstöðin hefur það að leiðarljósi að efla félagsfærni nemenda og bjóða upp á umhverfi þar sem þeim líður vel, geta hitt vini sína og kynnst öðrum. Lýðræði og jafnrétti eru hugtök sem mikið er unnið með og endurspeglast þessi hugmyndafræði mikið í daglega starfinu.
Á vegum félagsmiðstöðvarinnar er starfandi ungmennaráð með og undir leiðsögn forstöðumanns Víkurrastar og íþrótta-og æskulýðsfulltrúa.
Þeirra hlutverk er að:
• Vera bæjaryfirvöldum til ráðgjafar varðandi aðstöðusköpun og afþreyingarmöguleika ungs fólks.
• Koma tillögum og skoðunum ungs fólks til skila til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins.
Ungmennahús opnaði í fyrsta skipti í Dalvíkurbyggð í september 2012. Ungmennahúsið í Dalvíkurbyggð er ætlað ungmennum á aldrinum 16-20 ára og er opið einu sinni í viku. Hugmyndin er sú að ungmennin geta hist og verið í öruggum höndum undir leiðsögn fagaðila. Dagskráin hjá þessum hóp er algjörlega þeirra hugmyndafræði og búa þau til sína eigin dagskrá í sameiningu í upphafi vetrar.
Dagskrá vetrarins 2014-2015
Á hverju hausti leggur félagsmiðstöðin fram metnaðarfulla dagskrá fyrir vetrarstarfið sitt. Starfinu er skipt upp eftir aldri og er þannig sér dagskrá fyrir 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Einnig er dagskrá fyrir aldurshópinn 16-20 ára. Félagsmiðstöðin sér svo um félagsstarf í Árskógarskóla fyrir 1.-4.bekk.
Veturinn 2014-2015 verður ýmislegt í boði svo sem ruslatunnufótbolti, brjóstsykursgerð, jólaball, Zumba, klúbbastarf og klifur. Þar fyrir utan er opið hús reglulega. Allar upplýsingar um dagskrá hvers aldurs er að finna á heimasíðu félagsmiðstöðvarinnar www.dalvikurbyggd.is/tyr
Nýverið var Tónasmiðjan Týr opnuð, sem er nýjug í starfi félagsmiðstöðvarinnar, og verður starfrækt klúbbastarf í kringum hana í vetur. Áhuginn hefur verið vonum framar en þar geta nemendur lært tæknimál, mix, beat, hljóðvinnslu og upptökur svo eitthvað sé nefnt.
Nýting á morgnana
Húsið er í mikilli notkun en flestir morgnar eru lausir þannig að ef einhver hefur hugmynd að nýtingamöguleikum fyrir hádegi þá má hinn sami endilega hafa samband við Viktor á netfanginu viktor@dalvikurbyggd.is