Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2012-útdráttur

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2012 var í bæjarstjórn í gær, 22. nóvember. Að lokinni umræðu var áætluninni vísað til umfjöllunar í bæjarráði og til síðari umræðu í bæjarstjórn. Meðfylgjandi er útdráttur úr greinargerð bæjarstjóra með áætluninni en að lokinni síðari umræðu verður greinargerðin í heild sinni sett á vefinn með öðrum gögnum áætlunarinnar.

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar árið 2012
Við fyrri umræðu 22 nóv. 2011 

Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar árið 2012 eru þær að samstæðan skilar afgangi uppá ríflega 24 m. kr. Veltufé frá rekstri er áætlað kr. 224.277.000 og veltufjárhlutfall 1,2. Áætlað er að tekjur aðalsjóðs hækki um 32 m kr. á milli ára eða um 3,1% ; verði kr. 1.053.000.000 á árinu 2012.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar
Í forsendum er gert ráð fyrir því að verðbólgan verði 4,2% og útsvarshækkun er áætluð 4,3%. Það er heldur undir þeirri hækkun á útsvari sem hefur orðið á þessu ári, sem er nær 5,7%. Tekjur vegna málefna fatlaðra hafa þar áhrif en þær voru 10.630 m kr. á þessu ári og reiknað með því sama í áætlun 2012. Útsvarstekjur ársins 2012 eru þannig áætlaðar kr. 656.078.478. Reiknað er með óbreyttu atvinnuástandi og útsvarsprósenta er óbreytt á milli ára.

Varðandi tekjur frá Jöfnunarsjóði er reiknað með sömu krónutölu og á yfirstandandi ári. Það er ástæða til að minna á það að framlög Jöfnunarsjóðs til Dalvíkurbyggðar hafa dregist gríðarlega mikið saman síðan árið 2008 eða um 30%. Sífellt lægra framlag Jöfnunarsjóðs gerir það líka að verkum að þó skattekjur Dalvíkurbyggðar hækki hreyfast heildartekjur lítið.

Tekjur af fasteignasköttum á árinu 2012 verða kr. 153.267.000 netto sem er hækkun um tæplega 3 m kr. Þá er búið að draga frá ríflega 2 m. kr. vegna niðurfellingar hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum og bæta við framlagi Jöfnunarsjóðs uppá kr. 52.714.000 sem er í raun viðurkenning á því að fasteignagjöldin eru ekki að gefa Dalvíkurbyggð þær tekjur sem fengjust ef matið væri sambærilegt um land allt.

Það er ljóst að þó viðmið við fasteignamat geti verið íþyngjandi fyrir íbúa þá eru tekjur Dalvíkurbyggðar af fasteignasköttum lægri en landsmeðaltalið. Samkvæmt Árbók sveitarfélaga 2011 er fasteignaskattur á íbúa í Dalvíkurbyggð kr. 51.045. Meðaltalið yfir landið er kr. 79.615. Hér munar kr. 28.560 hvað fasteignaskattarnir í Dalvíkurbyggð eru lægri á íbúa en meðaltalið í landinu árið 2011. Nú hefur verið samþykkt að óska eftir heildarendurmati á fasteignum í sveitarfélaginu. Vonandi leiðir það til meiri jöfnuðar hvað varðar þennan mikilvæga skattstofn sveitarfélagsins. Þá er gert ráð fyrir því að frá 2012 verði vatnsgjald ekki miðað við fasteignamat heldur verði fast gjald og síðan miðað við fermetratölu fasteignar og rætt hefur verið um að skoða breytingu á fráveitugjaldi með sama hætti.

Fjárfestingar og framkvæmdir
Eignasjóður fer með allar fasteignir sveitarfélagsins og innheimtir svokallaða innri leigu á móti. Áætlað er að fjárfestingar á árinu 2012 verði rétt um 100 m. kr. Stærst er framkvæmd við Árskógarskóla sem er liður í því að þar verði stofnaður nýr skóli í einu húsi í stað þeirra tveggja sem eru fyrir. Vonandi skilar það sér bæði í hagkvæmara og betra skólahaldi. Þá verða framkvæmdir við göngustíga og ýmis umhverfisverkefni, plön, endurnýjun götulýsingar og einnig verða nokkrar gatnaframkvæmdir, þ.e. yfirlögn eldri gatna og er þá m.a. horft til Goðabrautar norður, og þar með talið Hafnatorg, og Martröð norður. Áætlað er að greiða 98.496 m kr. í afborganir langtímalána á næsta ári en að Eignasjóður taki nýtt langtímalán upp á 65 m kr. Netto niðurgreiðsla lána verður því um 33 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir viðhaldi á húseignum fyrir um 28 m kr. áfram er haldið við uppbyggingu bruna- og innbrotavarnakerfis í stofnunum sveitarfélagsins og sömuleiðis er áfram unnið að endurnýjun á tölvukosti samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var á þessu ári.

Fyrirtæki sveitarfélagins
Gert er ráð fyrir að rekstur B hluta fyrirtækja sveitarfélagsins verði í jafnvægi nema halli er enn á rekstri íbúða í eigu sveitarfélagsins og mikill vilji til að selja hluta þeirra. Áætlað er að Hafnasjóður skili afgangi þriðja árið í röð og að unnt verið að ráðast í aðra flotbryggju í Dalvíkurhöfn ásamt því að ljúka malbikun á Suðurgarði. Veitufyrirtæki munu halda áfram að byggja sig upp og bæta þjónustu sína m.a. með kaupum á orkumælum fyrir hitaveitu sem eiga að tryggja það að notendur séu af meiri nákvæmni að greiða fyrir þá orku sem þeir kaupa. Þá mun Vatnsveita einkum vinna við uppsetningu brunahana og lagnatengingu í Svarfaðardal.

Dalvíkurbyggð hefur komist vel frá efnahagsþrengingum undanfarinna ára, en lækkandi ríkistekjur og erfið staða sveitarfélaga á svokölluðum vaxtarsvæðum eru nú farin að bíta hér, þar sem sífellt minni tekjur koma í hlut Dalvíkurbyggðar frá Jöfnunarsjóði. Ákvarðanir bæjaryfirvalda taka mið af því. Sú áætlun sem lögð er fram til fyrri umræðu er þó engin kreppuáætlun, en ljóst að gæta þarf fyllsta aðhalds við rekstur sveitarfélagsins

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð sinnir vel sínum lögboðnu verkefnum og býður íbúum sífellt fjölbreyttri og betri þjónustu. Við uppbyggingu hennar hefur ekki síst verið lögð áhersla á börn og ungmenni. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur staðið sig frábærilega við að skila góðu starfi og góðum rekstri sinna stofnana. Það er grundvöllur þess góða samfélags sem við eigum.