Fiskidagurinn mikli 2013 var haldinn hátíðlegur síðasta laugardag en hátíðarhöldin stóðu frá miðvikudegi og fram á laugardagskvöld. Dagskráin alla þessa daga var glæsileg, hápunkturinn dagskrá laugardagsins, Fiskidagsins sjálfs, sem endaði á risa útitónleikum og flugeldasýningu á laugardagskvöldinu.
Fjöldi gesta sótti hátíðina en á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að um 26.000 manns hafi sótt hátíðina heim sem er svipaður fjöldi og í fyrra.
Markmið Fiskidagsins mikla er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Hátíðin er fjölskylduhátíð þar sem lögð er áhersla á vináttu og virðingu fyrir náunganum og umhverfinu og eru Fiskidagsboðorðin dæmi um það. Lögð er mikil áhersla á forvarnir og eru fjölskyldur hvattar til að njóta dagsins saman.