"Dalvík er Eurovision þorpið. Það verður byrjað að skreyta á morgun og það stendur framyfir laugardag," segir Dalvíkingurinn Júlíus Júlíusson en hann og aðrir íbúar Dalvíkurbyggðar eru nú í óðaönn að undirbúa sig undir Eurovision-söngvakeppnina sem fer fram um helgina. Friðrik Ómar Hjörleifsson, annar söngvari Eurobandsins, er Dalvíkingur og því ríkir mikill spenna í heimabyggð Friðriks.
Íbúar eru hvattir til að bregða undir sig betri fætinum í aðdraganda keppninnar, en meðal annars verða verslanir með sérstök Eurovision-tilboð, börn bæjarins búa til stuðningsskilti ásamt því að íbúar Dalvíkurbyggðar eru beðnir að kveikja á ljósaseríum sínum og draga fána að húni til að fagna.
Á fimmtudag klukkan 18:00 verður safnast saman við Ráðhús Dalvíkurbyggðar á Dalvík og farið í skrúðgöngu að Víkurröst þar sem horft verður á Friðrik Ómar og félaga hans í Eurobandinu trylla Evrópu með söng sínum. Hátíðarhöld Dalvíkurbyggðar einskorðast þó ekki bara við Eurovision því Dalvíkurbyggð fagnar við sama tækifæri tíu ára afmæli sínu. „Við hristum upp í bæjarlífinu, styðjum Friðrik Ómar og Eurobandið og fögnum 10 ára afmæli í leiðinni," segir Júlíus en hann spáir Íslandi góðu gengi í söngvakeppninni.