Á dögunum fór sviðsstjóri umhverfis-og tæknisviðs, ásamt umhverfisstjóra, í heimsókn í nýja móttökustöð Gámaþjónustunnar á Rangárvöllum, Akureyri. Markmið heimsóknarinnar var að kynna sér ferlið þegar kemur að flokkun úrgangs frá endurvinnslutunnum úr dreifbýli Dalvíkurbyggðar. Eins og staðan er í dag fer söfnun á endurvinnsluefni frá íbúum í dreifbýli Dalvíkurbyggðar fram á eins hólfa bíl, það er allt endurvinnanlegt efni fer í sama hólfið. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að efnið sé flokkað á endurvinnslustöð Gámaþjónustunnar en þar taka starfsmenn að sér að fullflokka allt efnið sem kemur grófflokkað frá heimilunum.
Í heimsókninni kom fram að búið er að festa kaup á tveggja hólfa bíl sem flokkar endurvinnanlegt um leið og tunnan er tekin og verður hann tekinn í notkun um leið og hann hefur borist.
Meðfylgjandi myndir sína hvernig verktakinn leggur sig fram um að allt endurvinnsluefnið sé flokkað og vill beina þeim tilmælum til íbúa í dreifbýli Dalvíkurbyggðar að halda áfram flokkun í endurvinnslutunnuna enda sé núverandi ástand aðeins tímabundið.