Fræðslu- og menningarsvið Dalvíkurbyggðar var að fá styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til að halda málþingið Eitt samfélag okkar allra sem haldið verður í samvinnu við Félagssvið. Til þingsins verður boðaður fjölbreyttur hópur íbúa sem hittist, ræðir og kryfur ýmis málefni og tækifæri samfélagsins í tengslum við margbreytilegan íbúahóp. Stefnt er á að virkja innfædda, aðflutta og erlenda íbúa í umræðunni. Þingið verður haldið á haustdögum.
Þetta er í þriðja sinn á fjórum árum sem Fræðslu- og menningarsvið Dalvíkurbyggðar fær úthlutun úr Þróunarsjóði innflytjendamála enda margar góðar hugmyndir sem flögra um í tengslum við fjölmenninguna sem við erum svo heppin að búa við.