Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari hefur valið þá ellefu leikmenn sem stíga fram fyrir hönd Íslands á morgun í síðari leiknum við Írland í umspilinu um sæti á EM kvenna í knattspyrnu. Í byrjunarliðinu eins og svo oft áður er Ásta Árnadóttir (Snorrasonar) frá Dalvík. Hún tekur innköst hægra megin með miklum tilþrifum. Sjá myndir neðst.
Liðið er að mestu óbreytt frá fyrri viðureign liðanna fyrir viku síðan nema að Dóra Stefánsdóttir kemur aftur inn eftir að hafa tekið út eins leiks bann. Hún kemur inní byrjunarliðið í staðinn fyrir Rakel Hönnudóttur. Þá er Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í liðinu þrátt fyrir að hafa farið meidd af velli í fyrri leiknum í Dublin.
Leikurinn hefst, ef aðstæður leyfa, klukkan 18.10 á Laugardalsvelli. Eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og með vettlinga því kalt verður samkvæmt veðurspánni.
Litlum orðum þarf að fara um mikilvægi leiksins fyrir Ísland. Aldrei áður hefur landslið okkar átt svo góða möguleika að komast í Evrópukeppni og nú. Fyrri leikur þjóðanna endaði 1:1 og Íslandi nægir markalaust jafntefli til að komast í lokakeppnina í Finnlandi.
Byrjunarliðið (4-5-1):
Markvörður: María Björg Ágústsdóttir
Hægri bakvörður: Ásta Árnadóttir
Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir
Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Tengiliðir: Dóra Stefánsdóttir og Edda Garðarsdóttir
Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir
Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir
Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir
Frétt fengin af www.mbl.is
Myndir af frægum innköstum Ástu Árnadóttur.
Myndir fengnar á www.visir.is